Sveinbjörn Ólafsson fæddist á Syðra-Velli í Flóa 17. október 1916. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 30. maí 2012.

Sveinbjörn var jarðsunginn frá Hafnarfjarðarkirkju 5. júní 2012.

Það eru forréttindi að kynnast langafa sínum, og enn meiri forréttindi að hafa fengið að eiga að og kynnast honum Sveinbirni Ólafssyni, langafa okkar sem nú hefur yfirgefið þennan heim. Við kveðjum hann með söknuði en á sama tíma með þakklæti í huga fyrir öll þau dýrmætu ár og yndislegu stundir sem við áttum með honum.

Hann langafi var enginn venjulegur afi. Sterkur, blíður, hugmyndaríkur, fræðandi, svona væri lengi hægt að halda áfram. En umfram allt var hann alltaf til staðar með sinn opna faðm. Hraustari einstakling var heldur ekki hægt að ímynda sér, en heilbrigt líferni einkenndi afa alla tíð. Það var líka alltaf stutt í húmorinn og þegar þetta er ritað þjóta um hugann margar minningar, sem hjálpa okkur að brosa í gegnum tárin.

Það er sárt að vita til þess að afi fái ekki að halda á sínu fyrsta langalangafabarni í sumar. En hann var alveg sérstaklega góður og þolinmóður við börnin í fjölskyldunni. Ljóslifandi í minningunni eru viðbrögð afa þegar hann frétti að hann fengi langalangafanafnbótina von bráðar. Honum fannst það einkar spennandi og var ekki lengi að líta til langömmu og tilkynna henni gleðifréttirnar. Brosið á afa mun ekki hverfa úr huga mér og drengurinn sem væntanlegur er mun svo sannarlega fá að heyra um langalangafa sinn í gegnum minningar okkar.

En minningarnar og sögurnar af afa eru margar og fjölbreyttar. Veiðileysuferðirnar, feðgahelgi í Vatnaskógi og ferðir í berjamó sitja þar ofarlega í huga okkar og ekki síður hversu gott og hlýtt það var alltaf að koma í heimsókn til þeirra. Einkennandi er þó hversu vel allar þessar minningar vitna um þá gleði, kærleik og visku sem hann deildi með okkur. Hvort sem afi gerði sér grein fyrir því eða ekki hefur hann með lífi sínu verið okkur mikilvæg fyrirmynd þegar kemur að samskiptum við aðra, sérstaklega þá sem við elskum. Samband hans og Boggu ömmu vitnar um það hversu sterkt, innilegt og gjöfult samband við getum átt við ástvini okkar og hversu dásamlegan ávöxt það gefur að byggja upp sterkt hjónaband. Samband þeirra Boggu ömmu hefur gefið af sér eina þá mikilvægustu gjöf sem við eigum, það er hina samheldnu fjölskyldu sem nú syrgir.

Afi samdi ýmsar vísur og var ein af þeim samin þegar elsta barnabarnabarnið hans varð átta ára:

Verndarengill við þér taki

og verndi þig í lengd og bráð.

Þegar átta árin eru að baki

og æfin verði gjöfum stráð.

Nú þegar við horfumst í augu við missinn og þökkum fyrir þær stundir sem við áttum með afa minnumst við þín og gerum orð hans að okkar og biðjum þess að:

Verndarengill við þér taki

og verndi þig í lengd og bráð.

Við þökkum Jesú fyrir líf hans og biðjum honum Drottins blessunar. Boggu ömmu og fjölskyldunni vottum við okkar dýpstu samúð.

Davíð Örn, Benjamín

Ragnar og Guðlaug María.