Guðmundur Ólafsson fæddist í Skjaldabjarnarvík á Ströndum 1. apríl 1939. Hann lést 5. júní 2012.

Hann fluttist til Ísafjarðar með fjölskyldunni og byrjaði að vinna við sjóvinnu og beitningu. Síðan í símaflokki sem kom til Patreksfjarðar, þar kynntist hann Álfdísi Ingu Sigurjónsdóttur árið 1962. Þau eignuðust fimm börn, þau eru: Sigurjón Bjarni Guðmundsson, f. 17.2. 1964, Gunnar Birkir Guðmundsson, f. 15.6. 1966, Jón Garðar Guðmundsson, f. 13.1. 1968, Guðmundur Ingi Guðmundsson, f. 7.9. 1972 og Rósa Guðmundsdóttir, f. 2.2. 1976.

Guðmundur var jarðsunginn frá Patreksfjarðarkirkju 16. júní 2012.

Í þessum fátæklegum orðum langar mig að heiðra minningu Guðmundar Ólafssonar frá Patreksfirði. Ég man eftir Gumma klipp eins og hann var yfirleitt kallaður fyrir vestan, í blokkinni svokölluðu að Bölum 4 á Patró. Gummi fluttist með fjölskyldu sína þangað, líka foreldrar mínir. Í nýbyggðu blokkinni á Patró áttum við heima frá árinu 1973, á næstu hæð fyrir ofan Gumma og hans fjölskyldu. Mikill samgangur var milli pabba og mömmu og Gumma og Ingu. Það var fengið ýmislegt að láni; sykur, hveiti o.fl., skroppið í kaffi til Gumma og Ingu eða þau komu upp til okkar í spjall. Góð samskipti voru á milli íbúa þarna. Ég man fyrst eftir Gumma í kringum 1970, þá nýfluttur vestur, eitthvað var ég orðinn síðhærður og úr varð að pabbi fór með mig á Moskovitchnum inn á Björg til Gumma þar sem þau bjuggu þá, Gummi klippti mig og pabba. Ég sótti alltaf mikið til þessa eðalfólks, það var og er svo notalegt að koma til þeirra, alltaf velkominn. Þar mætti manni mikil hlýja, bros og glettni.

Fyrir neðan blokkina var gamla frystihúsið, síðar sláturhús. Ég var samferða Gumma í vinnuna í páska- og jólafríum, við útskipanir á fiski, við að taka niður dilka eða bara það sem til féll. Það var gott að hafa Gumma sér við hlið, þar sem hann þekkti vel til verka og var duglegur maður. Gummi kenndi mér margt til verka sem ég bý að í dag. Ég man eftir vettlingunum sem Gummi var með í frystiklefanum, þeir voru tveggja þumla, mér fundust þetta skrítnir vettlingar. Gummi prjónaði á sig og sína, þá var ekki hlaupið í stórmarkaðinn þó vantaði nauðsynjar, Gummi prjónaði það sem þurfti. Gummi var alla tíð „góður skaffari“, það skorti aldrei neitt hjá þeim, kjötið var sótt inn á Barðaströnd, í skiptum fyrir fisk eða skotsilfur hjá bændum þar. Gummi ræktaði kartöflur og fiskur var auðfenginn. Lengst af hafði Gummi sitt lífsviðurværi af störfum sem tengdust sjómennsku.

Það eru forréttindi að hafa kynnst Gumma, svo litríkum karakter, hann var stórmenni í sinni sveit. Hann var alltaf tilbúinn að hjálpa.

Ekki minnkaði veiðibakterían hjá mér eftir að ég kynntist Gumma, hann var alla tíð mikill veiðimaður. Hjá Gumma klipp lærði ég margt í sambandi við hegðun á veiðislóð, hvernig við berum okkur að í veiði, virðingu fyrir bráðinni og umgengni við landið. Gummi tók mig oft með í veiðiferðir, hann var veiðimaður af guðs náð.

Guðmundur skilur eftir sig stórt skarð á Patró, hans verður lengi minnst, hann var góður maður, glettinn og með hjartað á réttum stað og vildi öllum vel. Hann hefur alla tíð átt stað í mínu hjarta sem og hans fjölskylda öll.

Elsku Gummi, takk fyrir að fá að vera samferða þér hér á jarðríki, en því miður í alltof stuttan tíma, þú varst svo skemmtilegur maður. Nú ertu kominn á vit nýrra ævintýra í Sumarlandinu þar sem veiðilendur eiga sér enga hliðstæðu, í veiðinni varstu alltaf á heimavelli.

Ég votta Ingu og öllum afkomendum þeirra mína dýpstu samúð vegna fráfalls hans. Megi góður guð styrkja þau í sorginni.

Kveðja,

Kristófer Kristófersson, vinur og veiðifélagi.