[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jónasi Sen er margt til lista lagt og gestir á raftónlistarhátíðinni Extreme Chill Festival eiga vafalítið á góðu von núna um helgina, en Jónas er meðal þeirra listamanna sem þar troða upp.

Jónasi Sen er margt til lista lagt og gestir á raftónlistarhátíðinni Extreme Chill Festival eiga vafalítið á góðu von núna um helgina, en Jónas er meðal þeirra listamanna sem þar troða upp. Verða þar einnig raftónlistarsnillingar á borð við Prince Valíum, Sigtrygg Berg og Ruxpin svo aðeins séu fáir nefndir. Finnur náði tali af Jónasi.

1. Þegar ég var sjö ára framdi ég mesta prakkarastrik ævi minnar. Ég hafði þá nýlega uppgötvað að lykillinn að flyglinum heima virkaði sem þjófalykill. Hann gekk að öllum hurðum heimilisins, og líka að íbúðinni á næstu hæð fyrir neðan. Ég braust þar inn, læsti klósettinu og faldi lykilinn að því í nærbuxnaskúffu.

2. Ég kann að umgangast skotvopn. Pabbi átti 14 riffla og var einn af fáum mönnum á landinu sem höfðu leyfi fyrir skammbyssum. Ég skaut fyrst af riffli þegar ég var fimm ára. Tveimur árum síðar fékk ég að skjóta af skammbyssu.

3. Eitt af hobbíunum mínum er að mála myndir.

4. Þegar ég var um tvítugt voru tvö plaköt af Madonnu uppi á vegg hjá mér. Ég sá myndina með henni, Desperately Seeking Susan , a.m.k. fimmtán sinnum. Sem er frekar skrýtið, því ég er ekki hrifinn af henni í dag.

5. Ég er í dulspekiklúbbi, við erum fjórir. Við hittumst af og til að ræðum andans mál. Einn af okkur er frímúrari, annar er í Samfrímúrarareglunni, sá þriðji er virkur kaþólikki en sá fjórði er yfirlýstur trúleysingi. Við ættum í rauninni að vera svarnir óvinir, en erum það ekki!

6. Ég er líka í tónlistarklúbbi. Við erum fimm, störfum öll við tónlist, en á mjög ólíkum vettvangi. Við hittumst ca. tvisvar á ári, borðum og spilum tónlist af geisladiskum eða iPodum hvert fyrir annað.

7. Ég hef einu sinni skrifað skáldskap. Það var smásaga sem var birt í helgarblaði DV. Hún fjallaði um tónlistargagnrýnanda sem var myrtur á tónleikum.

8. Ég hitti einu sinni Scarlett Johansson. Það er í eina skiptið á ævinni sem ég hef verið „star struck“. Ég var svo feiminn að ég gat ekki sagt neitt nema eitthvað bjánalegt. En ég hugsaði í sífellu: Mikið er ég í ljótri skyrtu.

9. Aðalviðfangsefnið mitt í vetur hefur verið að semja tónlist í kringum söng einhverfs ljósmyndara frá Seattle.

10. Ég sjálfur syng ekki. Ég hef fóbíu fyrir að syngja, enda hef ég enga rödd. Mér finnst hinsvegar gaman að heyra aðra syngja.

11. Uppáhaldshljóðfærið mitt er munnharpa. Hún er eitthvað svo rómantísk.

12. Ég tók ekki bílpróf fyrr en ég var 34 ára. Ég reyndi það fyrst 18 ára, en stóð mig svo illa í bílprófinu að ég féll.

13. Uppáhaldsmaturinn minn er sushi. Sennilega borða ég of mikið af grjónum (ég hef verið uppnefndur Grjónas) og þarf að taka mig á.

14. Ég skrifaði einu sinni nokkrar greinar þar sem ég gerði grín að sembal og að þeim sem spila á hann. Fyrir gráglettni örlaganna varð ég sjálfur semballeikari löngu síðar og þurfti að éta þessar greinar ofan í mig.

15. Ég er alæta á tónlist. En ef ég vil hafa það virkilega notalegt, þá er djass það eina sem dugir.

ai@mbl.is