Haraldur Sigurðsson fæddist í Reykjavík 7. maí 1932. Hann lést á líknardeild Landspítalans 14. júní 2012.

Útför Haraldar fór fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði 22. júní 2012.

Þegar ég fékk fréttir af andláti Halla móðurbróður míns komu fyrst í hugann minningar um heimsóknir á bernskuárum mínum til afa og ömmu á Hringbrautinni. Það sem var sérstaklega minnisstætt og spennandi var að fá að fara í herbergið niðri í kjallara þar sem Halli var með radíógræjurnar sínar. Þá var hvorki Internet né Skype til að komast í samband við fólk í útlöndum. Halli var í morse sambandi við ýmsa aðila í útlöndum og fékk ég stundum að fylgjast með þegar hann var að hafa samband við þá og mig minnir að kallmerki hans hafi verið TF3. Þessi áhugi hans á fjarskiptatækni hélst áfram því hann lauk háskólanámi á því sviði í Þýskalandi og starfsvettvangur hans var á fjarskiptasviði hjá Landssímanum.

Fyrir tæpu ári síðan var haldið fjölmennt fjölskyldumót afkomenda Sigurðar afa og ömmu Lovísu í Fljótshlíðinni. Halli, Addi og Didda mamma mín mættu öll, en þau voru þau einu sem voru á lífi af sjö systkinum. Þau þrjú voru afar ánægð með mætingu og skemmtu sér vel með yngri kynslóðinni. Þá datt mér ekki í hug að yngsti bróðirinn Halli myndi falla frá innan árs en enginn veit sína ævina fyrr en öll er.

Ég veit að mamma mun sakna Halla bróður síns mjög því hann kom reglulega í heimsókn til hennar á Hrafnistu í Hafnarfirði meðan hann hafði heilsu til.

Mamma og við systkinin sendum ykkur Alexíu, Katrínu og Hauki Þór okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jón H. Magnússon.