— Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistarhátíðin Rauðasandur Festival fer fram í samnefndri náttúruperlu á sunnanverðum Vestfjörðum dagana 6.-8.júlí nk.

Tónlistarhátíðin Rauðasandur Festival fer fram í samnefndri náttúruperlu á sunnanverðum Vestfjörðum dagana 6.-8.júlí nk. Meðal skipuleggjanda er Björn Þór Björnsson, sem gengur oftar en ekki undir nafninu Bobby Breiðholt, en aðstandendur eru að sögn „nokkrir vinir sem langaði að halda partý úti í sveit“. Bobby sleit sig frá skyldum dagsins til að gefa upp óskalistann sinn. Yfir til þín, Bobby:

Óskaiðjan?

Ég er það lánsamur að fá borgað fyrir það sem ég hef ástríðu fyrir. Ég vinn í auglýsingabransanum auk þess að hanna plötuumslög, teikna skrípamyndir og skipuleggja tónlistarhátíð. En ef út í það er farið þá væri ég alveg til í að vera brimbrettakennari á Hawaii eða eiga rommverksmiðju á Jamaíka.

Óskamaturinn?

Ég ætla að fá hjá þér einn Egils pilsner og eina Júmbó samloku með roastbeef og eitt lakkrísrör.

Draumabíllinn?

Ég er ofboðslegur áhugamaður um bíla með parketi á hliðunum. Þannig að ég segi Jeep Wagoneer eða AMC Eagle. Eða þarna Beach Boys trukkinn með brimbrettum á þakinu.

Draumaverkefnið?

Ég á ennþá eftir að gefa út mína fyrstu prog plötu. Það væri þreföld konseptplata um geimkúrekann Böðvar Vöðvar. Umslagið væri saumað saman úr gömlum þrívíddarkörfuboltamyndum.

Hvað vantar á heimilið?

Einhvern til að taka til. En það væri líka fínt að eiga uppstoppaðan gíraffa, glymskratta með engu nema upptökum af sjávarnið og öfugan örbylgjuofn. Það er sko tæki sem kælir hluti á ógnarhraða.

Hvaða hæfileika myndirðu vilja hafa?

Að kunna á eitthvað undarlegt hljóðfæri. Það er alltof lítið af Ondes Martinot sólóum í poppmúsík í dag.

Hvað er best heima?

Það er langbest að snúsa í fjóra tíma á dag, tuska köttinn minn til og að djóka með kærustunni minni.

jonagnar@mbl.is