Danir telja ekki líklegt að hverfa megi frá undanþágum í sambandi ótta og óvissu

Skýrt hefur verið frá því í fréttum að forsætisráðherra Danmerkur, Helle Thorning-Schmidt, hafi lagt á hilluna þá fyrirætlan ríkisstjórnar sinnar að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um þær fjórar undanþágur sem Danir fengu árið 1993 frá Maastricht-sáttmála Evrópusambandsins.

Undanþágurnar voru veittar til þess að tryggja að Maastricht-sáttmálinn næði fram að ganga en til þess þurfti samþykki allra ríkja sambandsins. Danir höfnuðu sáttmálanum fyrst í þjóðaratkvæði 1992 en samþykktu hann síðan ári síðar með undanþágunum. Sjálfsagt hafa sumir kjósendanna samþykkt nauðugir í seinna skiptið, en látið undanþágurnar duga sér til réttlætingar. En þeir hafa þá ekki áttað sig á að sambandið og æstir danskir evrópusinnar litu ekki svo á að undanþágurnar væru varanlegar fyrir Dani. Enda hafa verið gerðar ýmsar áætlanir um atlögu gegn þeim og mjög rýnt í skoðanakannanir til að undirbúa ákvörðun um tímasetningu nýrra kosninga.

Afstaða til lýðræðis er næsta sérstök hjá Evrópusambandinu og æstustu stuðningsmönnum þess. Það er því ekki að ástæðulausu sem svo mjög er rætt um „lýðræðishallann“ innan sambandsins. Sú umræða er orðin svo þungbær að helstu kommisserar þess hafa tekið þátt í samþykktum yfirlýsinga sem áttu að draga úr hallanum. Allt hefur það verið til hreinna málamynda og engu breytt.

Afstaða ESB til lýðræðislegra ákvarðana einstakra aðildarþjóða kemur hvað best fram í meginlögmálinu sem gildir um þjóðaratkvæðagreiðslur einstakra landa ESB. Gangi niðurstaða viðkomandi þjóðar gegn sjónarmiðum kommissaranna og fylgjenda þeirra í hópi heimamanna skal jafnan kjósa aftur og eins oft og þarf. Stundum eru gerðar orðalagsbreytingar sem eru til málamynda eða varða aukaatriði. Ef niðurstaðan er eftir kokkabókum kommissaranna er aldrei kosið aftur. Nei þýðir sem sagt jafnan kannski en já er á hinn bóginn tekið sem endanlegt og óafturkræft svar. Og kosningar um ESB sáttmála eru aðeins haldnar ef ekki er hægt að komast hjá þeim og aðeins þegar talið er öruggt að vel standi í bólið hjá undirlægjum ESB í viðkomandi landi. Og jafnvel slíkt hefur ekki alltaf dugað til.

Og menn geta rétt ímyndað sér hvernig staðan er í Danmörku núna. Ríkisstjórnin þar hafði lofað og sett í sinn stjórnarsáttmála að kosið yrði um afnám undanþáganna frá Maastricht á þessu kjörtímabili. Það stóð ekki í stjórnarsáttmálanum að kosningar færu því aðeins fram að tryggt væri talið að ná mætti fram „jákvæðri“ niðurstöðu. En það var auðvitað undanskilið. Og fréttirnar sem berast núna lýsa vel stöðumati danska forsætisráðherrans hvað þetta varðar:

„Thorning-Schmidt sagði í samtali við danska dagblaðið Politiken að mikill ótti og óvissa væri um framtíð Evrópusambandsins og það gætu því liðið mörg ár þar til haldið yrði þjóðaratkvæði í Danmörku um málefni sem tengdust sambandinu.“

Jóhanna Sigurðardóttir hefur fullyrt að Thorning-Schmidt flokkssystir hennar hafi lýst yfir mikilli ánægju með aðildarumsókn Íslands að ESB. Virðast þær samfylkingarsystur telja að þegar ríki „ótti og óvissa um framtíð Evrópusambandsins“ þá sé einmitt rétti tíminn til að Ísland taki sæti í sambandi óttans og verði aðili að mynt sem menn vita varla hvort lifir frá viku til viku. En aðrar þjóðir haldi algjörlega að sér höndum þegar þannig standi á.