Kamilla Richardsdóttir Eiriksson fæddist í Reykjavík 28. júní 1948. Hún lést í Orlando í Flórida 5. nóvember 2011.

Móðir hennar er Erna Petrea Þórarinsdóttir og faðir Richard Felixsson.

Kamilla var gift Runólfi Þór Eiríkssyni. Dóttir þeirra er Erna Petrea Eiriksson Cahill, maður hennar er Kevin Cahill, þeirra börn eru Sara Camilla, Gabriella Petrea og Emma Reese.

Kamilla verður jarðsett í Fossvogskirkjugarði í dag, 28. júní 2012, kl. 16.

Fátt annað en fegurð og gleði rifjast upp í minningunni hjá mér þegar ég hugsa til baka um samferð okkar Kamillu í lífinu. Æði oft kom ég til hennar og föður míns til Ameríku og dvaldi þar í skólafríum sem og öðrum stundum. Margt var gert skemmtilegt á þeim árum, er mér minnistætt þegar ég var yngri og sagðist aldrei hafa farið til útlanda þrátt fyrir að ferðast fram og til baka frá Íslandi til Ameríku á þeim tíma. Kamilla var ekki lengi að redda einni utanlandsferð, við enduðum öll saman á St. Martein í Karíbahafinu, þetta lýsir henni best, alltaf að gleðja aðra. Endalaust er hægt að rifja upp góðar minningar sem verða ávallt geymdar í mínu hjarta.

Kamilla barðist við krabbamein í mörg ár, aldrei kvartaði hún eða fór í sjálfsvorkunn, heldur barðist hún með bros á vör fram á síðasta dag. Þegar símtalið kom að nú væru endalokin að nálgast hljómaði það svo óraunverulegt. Ég var svo lánsöm að eyða með henni hennar síðustu dögum áður en englarnir báru hana frá okkur. Ég kveð góða og fallega konu með söknuð og sorg í hjarta. Elsku Kamilla, megir þú hvíla í friði.

I. Svana Runólfsdóttir.

Í dag, fimmtudaginn 28. júní, verður Camilla (Richardsdóttir) Eiríksson borin til grafar á afmælisdeginum sínum. Camilla lést 5. nóvember sl. eftir langa baráttu við krabbamein í faðmi fjölskyldu sinnar í Orlando.

Camillu kynntist ég þegar ég var barn en hún er seinni kona föður míns, Runólfs Þórs Eiríkssonar. Þegar ég var yngri fór ég á sumrin í heimsókn til þeirra til New York þar sem þau bjuggu, auk þess sem ég heimsótti ömmu mína í leiðinni, en hún bjó þar einnig. Þetta voru skemmtilegar ferðir sem ég á margar góðar minningar frá, og ég rifja þær upp reglulega með bros á vör.

Undanfarin ár hafa samskipti mín við Camillu verið mest í gegnum síma, þar sem hún bjó ásamt föður mínum í Orlando. Í símtölum okkar Camillu ræddi hún oft um einkadóttur sína, Ernu Petreu, og dætur hennar, þær Söru Camillu, Gabby og Emmu. Ég man sérstaklega eftir símtölunum þegar Camilla átti von á Ernu og dætrum hennar í heimsókn, eða þegar hún var á leiðinni til New York að heimsækja þær. Hvað hún var hamingjusöm og tilhlökkunin mikil. Camilla var svo stolt af þeim og stoltari ömmu var varla hægt að finna.

Við ræddum einnig um breytingar sem hún hafði gert á húsinu þeirra pabba, sem hún var svo ánægð með og faðir minn líka. Hann er búinn að segja mér mörgum sinnum að ég myndi ekki þekkja húsið aftur frá því ég heimsótti þau seinast, þar sem það sé orðið svo glæsilegt eftir að Camilla gerði margar breytingar á því. Það verður gaman að sjá breytingarnar á húsinu næst þegar ég fer til Orlando, en jafnframt sorglegt að fá ekki að hitta Camillu þar.

Ég mun minnast Camillu með gleði í hjarta, konunnar sem kvaddi þennan heim allt of snemma.

Arnheiður Runólfsdóttir.