[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM í fótbolta Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.

EM í fótbolta

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Spánverjar halda enn í vonina um að skrifa nýjan kafla í knattspyrnusöguna en þeir eru komnir í úrslitaleikinn á EM eftir sigur á Portúgölum í fyrri undanúrslitaleiknum sem háður var í Donetsk í Úkraínu í gærkvöld. Það þurfti vítaspyrnukeppni til að útkljá slag liðanna frá Íberíuskaganum og þar höfðu Spánverjarnir betur, 4:2, þar sem Césc Fábregas skoraði fjórða mark Spánverja sem réð úrslitum.

Spánverjar geta því unnið þriðja stórmótið í röð og orðið fyrstir allra til að verja Evrópumeistaratitilinn en þeir jöfnuðu lið Vestur-Þjóðverja sem tókst að komast í úrslit á þremur stórmótum í röð á sjöunda áratugnum.

Þeirri spurningu var velt upp í Morgunblaðinu í gær hvort spænska vélin yrði stöðvuð. Vissulega tókst Portúgölum að hægja verulega á vélinni og hindra Spánverja í að spila sinn leik. Miðjumenn portúgalska liðsins náðu að halda „kóngunum“ Xavi og Iniesta í skefjum og fyrir vikið náðu Spánverjarnir ekki upp sínu stutta hnitmiðaða spili sem þeir eru svo þekktir fyrir. Portúgalarnir höfðu allan tímann í fullu tré við heims- og Evrópumeistarana en það var ekki fyrr en í framlengingunni sem Spánverjarnir minntu á sig. Í vítakeppninni létu þeir ekki slá sig út af laginu þótt þeirra aðalvítaskytta, Xabi Alonso, hafi brugðist bogalistin á vítapunktinum. Heppni, hefð og hæfni er með Spánverjunum. Þeir eru ósigraðir í níu útsláttarleikjum í röð og hafa spilað 11 leiki í úrslitakeppni EM án ósigurs.

Lélegasti leikur Spánverja á mótinu

Leikur grannþjóðanna náði aldrei því flugi sem maður vonaðist eftir. Enginn spilar betur en andstæðingurinn leyfir. Spánverjarnir spiluðu líklega sinn lélegasta leik í keppninni og þeir geta ekki komist upp með að spila annan slíkan á sunnudaginn eigi þeim að takast að hampa Evrópumeistaratitlinum. Það munaði gríðarlega miklu að Xavi og sérstaklega Iniesta voru aðeins skuggarnir af sjálfum sér og sú ráðstöfum Vicente del Bosque, þjálfara Spánverja, að tefla Alvaro Negredo fram sem fremsta manni í byrjunarliðinu gekk engan veginn upp. Negredo sást varla í leiknum og Fernando Torres á það skilið að fá að spreyta sig í úrslitaleiknum. Aumingja Torres kom ekkert við sögu en hver veit nema hann leiki sama leik og fyrir fjórum árum þegar hann tryggði Spánverjum Evrópumeistaratitilinn þegar Spánn lagði Þýskaland í úrslitaleiknum. Sömu lið eru líkleg til að leika aftur til úrslita því Þjóðverjar verða að teljast sigurstranglegri í leiknum gegn Ítölum í kvöld og fyrir flest fótboltaáhugafólk yrði viðureign Spánverja og Þjóðverja draumaúrslitaleikur með fullri virðingu fyrir Ítölum, sem hafa staðið sig frábærlega á mótinu.

Finn til með Portúgölum

Ég finn til með Portúgölum sem svo sannarlega geta borið höfuðið hátt með frammistöðu sinni á mótinu. Leikáætlun Portúgala gegn meistaraliði Spánverja gekk nánast fullkomlega upp. Varnarleikur þeirra var til fyrirmyndar og vinnsla og dugnaður miðjumanna var eftirtektarverður. Joao Moutinho fór þar fremstur í flokki en hann náði að gera það sem fáum er kleift, það er að halda Andrési Iniesta í skefjum. Portúgalar hefðu þurft að fá meira út úr Cristiano Ronaldo. Það var ekki svo að Ronaldo reyndi ekki sitt besta en meðspilarar hans í fremstu víglínu, Nani og Hugo Almeiea, voru lítt ógnandi. Englendingar vita vel hvernig Portúgölum líður en nú kom að því í fyrsta sinn að Portúgalir biðu lægri hlut í vítakeppni á stórmóti. Þeim hafði tvívegis tekist að vinna Englendinga, á EM 2004 og á HM 2006.
Vítakeppnin

0:0 Patricio varði frá Alonso
0:0 Casillas varði frá Mautinho
1:0 Iniesta skoraði fyrir Spán
1:1 Pepe skoraði fyrir Portúgal
2:1 Piqué skoraði fyrir Spán
2:2 Nani skoraði fyrir Portúgal
3:2 Ramos skoraði fyrir Spán
3:2 Alves skaut í slá
4:2 Fabregas skoraði með skoti í stöng og inn