Zoe sló öll fyrri þolakstursmet rafbíla í Aubevoye í Frakklandi.
Zoe sló öll fyrri þolakstursmet rafbíla í Aubevoye í Frakklandi.
Rafbíllinn Zoe frá Renault setti nýtt heimsmet á Aubevoye kappakstursbrautinni í Normandí í Frakklandi er hann lagði að baki 1.618 kílómetra á sólarhring. Fyrra metið bætti bíllinn um 25% en það var 1.280 km.

Rafbíllinn Zoe frá Renault setti nýtt heimsmet á Aubevoye kappakstursbrautinni í Normandí í Frakklandi er hann lagði að baki 1.618 kílómetra á sólarhring. Fyrra metið bætti bíllinn um 25% en það var 1.280 km.

Við metaksturinn, sem fram fór í byrjun mánaðarins, var teflt fram tveimur eintökum af bílnum sem 15 ökumenn skiptust á um að aka og hlaða rafmagni milli aksturslota. Metbíllinn lagði að baki 363 hringi í brautinni en 18 sinnum voru geymar hans hlaðnir meðan á mettilrauninni stóð. Hinn bíllinn ók nokkrum hringjum færri þar sem hann komst 1.506 kílómetra á sólarhringnum.

Báðir þóttu bílarnir standa undir væntingum um getu og þol, og reyndar gott betur. Þar sem opinberir fulltrúar voru viðstaddir til að staðfesta árangurinn er fastlega búist við að hann verði skráður í metabók Guinness.

Zoe er fyrsti bíllinn sem hannaður er og smíðaður frá grunni sem rafbíll. Hann var frumsýndur á bílasýningunni í Genf 2010 og er væntanlegur á götuna með haustinu. Við metaksturinn var brúkaður sérstakur og tæknilega fullkominn hleðslubúnaður sem nefndur er kamelljónið. Með honum má stinga bílnum í samband við hvaða rafdós sem er og hvaða spennu sem er. Tók það aðeins hálftíma að hlaða rafgeymana að 80%.

Í hverri lotu í tilrauninni var Zoe-bílnum ekið 210 km áður en hlaða þurfti upp á nýtt. Við venjulegar kringumstæður er drægið hins vegar talið liggja á bilinu 100 til 150 km eftir notkun.

agas@mbl.is