Kristín Pétursdóttir
Kristín Pétursdóttir
Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Auður Capital vinnur að stofnun fimm til sjö milljarða króna framtakssjóðs undir nafninu Edda. Sjóðurinn á vera áhrifafjárfestir og fjárfesta í millistórum fyrirtækjum. Þau velta tveimur til 20 milljörðum króna.

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Auður Capital vinnur að stofnun fimm til sjö milljarða króna framtakssjóðs undir nafninu Edda. Sjóðurinn á vera áhrifafjárfestir og fjárfesta í millistórum fyrirtækjum. Þau velta tveimur til 20 milljörðum króna. „Við munum fjárfesta í spennandi og arðvænlegum rekstrarfélögum,“ segir Kristín Pétursdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Hún segist vonast til að fá fjárfesta til liðs við sjóðinn í sumar og að fyrsta fjárfestingin líti dagsins ljós í haust. Hún slær þó þann varnagla að erfitt sé að segja til um tímasetningu fjárfestinga með fullri vissu.

Stefna Eddu er að eiga í félögunum að jafnaði í þrjú til fimm ár. Líklega yrðu fjárfestingarnar á bilinu tíu til tólf talsins og mun sjóðurinn eiga 35 til 100% hlut í félögunum. Að sögn Kristínar er of snemmt að opinbera hvaða félög Edda hefur áhuga á að kaupa. Aftur á móti segir hún að verið sé að skoða mörg spennandi kauptækifæri. Töluvert er um spennandi fyrirtæki til kaups um þessar mundir að hennar mati því mörg fyrirtæki hafa lokið fjárhagslegri endurskipulagningu eða eru við það að ljúka henni.

Auður Capital mun eiga hlut í sjóðnum. „Við höfum verið að kynna sjóðinn fyrir fagfjárfestum, þ.e. lífeyrissjóðum, tryggingafélögum og öðrum fagfjárfestum síðustu vikurnar og höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð,“ segir hún.

Auður Capital stofnaði fjárfestingasjóðinn Auði 1 árið 2008. Sjóðurinn gekk vel í fyrra, hagnaðist um 695 milljónir króna á síðasta ári og skilaði 32% arðsemi eigin fjár. Kristín segir að það hjálpi til við að koma Eddu á fót að Auður Capital hafi sýnt góðan árangur við rekstur sambærilegs sjóðs.