Pétur Brynjólfsson fæddist á Bíldudal við Arnarfjörð 17. júlí 1940. Hann lést á Akureyri 7. júní 2012.

Útför Péturs fór fram frá Akureyrarkirkju 15. júní 2012.

Það var vel tekið á móti ungum manni í Hólalaxi fyrir allmörgum árum. Snaggaralegur grannur maður með glettni í augum vindur sér að komumanni og spyr eftir erindi. Langt og afar hreinskilið samtal um bleikjumál þann dag varð grunnur að ævilangri vináttu. Bleikjueldi á Íslandi var á þessum árum á upphafsreit og í Hólalaxi stjórnaði Pétur Brynjólfsson uppbyggingu bleikjueldis. Sýn hans á þessi mál var ekki flókin, að vanda skyldi til verka í öllum ferlinum, allt frá vali á fiski til undaneldis og þar til afurðin endaði á diski neytenda. Þannig varð Hólableikja þekkt gæðavara erlendis.

Aðstæður voru oft erfiðar í Hjaltadal og veður válynd yfir háveturinn á þeim tíma sem mest eftirspurn var eftir vörunni. Alltaf var samt hægt að treysta á að Pétur og hans menn kæmu því magni til skila sem hann hafði tekið að sér að afgreiða í flug á markaðinn. Við fórum á þessum árum ógleymanlega ferð saman til Bretlands, Írlands og Hollands til að hitta kaupendur að bleikju. Pétur með sinn náttúrulega sjarma, forvitni og innsæi fyrir því starfi sem þau unnu, heillaði þetta fólk samstundis og eignaðist það sem vini. Þegar kemur að bleikjueldi verður Péturs minnst sem frumkvöðuls sem hefur haft afgerandi áhrif á vöxt og viðgang atvinnugreinar sem í dag skilar ótöldum hundruðum milljóna til þjóðarbúsins.

Péturs verður einnig minnst sem goðsagnar í stangveiði. Fnjóská var hans heimavöllur og síðustu árin vann hann ótrauður að endurreisn hennar sem laxveiðiár. Lagni hans við laxinn var landskunn. Þrátt fyrir að í mér hafi blundað stangveiðimaður áður en ég hitti Pétur varð mér fljótt ljóst og honum enn frekar, eftir fyrstu stundir saman í veiði að þarna komu saman meistari og byrjandi. Hann var þeirri náttúru gæddur að skilja hegðun fiska í vatni og gat með eðlislægri natni tengt hana ljósi, veðurskilyrðum, agni og hvernig leggja á flugu fyrir fisk svo að hann taki. Þegar hann veiddi rann hann einhvern veginn saman við náttúruna. Þetta magnaða innsæi er afar fáum gefið, enda þekkti Pétur varla hugtakið fiskleysi. Pétur var ósínkur á að deila þekkingu sinni á veiðiskap með mér. Sögurnar voru alltaf glettnar og sagðar með innlifun og leikrænum tilburðum. Er ég ævarandi þakklátur fyrir að hafa haft slíkan meistara sem mentor í stangveiði.

Sem einlægur mannvinur og sá sem trúir því ekki að veröldin hangi saman á tilviljunum, fann Pétur hugsunum sínum og þörf fyrir að láta gott af sér leiða í Oddfellow-reglunni. Hann hefur markað spor í starfsemi reglunnar bæði á N-Vesturlandi og síðar á Akureyri með ósérhlífni sinni og vinnusemi. Við Oddfellowar höfum nú misst góðan vin og liðsmann. Fyrir mér var Pétur um margt óvanalegur maður. Hann var hjartahlýr og hrjúfur, skapmikill, gerandi og hugsandi framkvæmdamaður. Umfram allt hafði hann meðfæddan, náttúrlegan veraldarskilning lífsunnandans og gleðimannsins. Vinar verður saknað.

Hermann Ottósson.