Eysteinn Jónsson fæddist í Svínadal í Kelduhverfi 3. mars 1935. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 8. júní 2012.

Útför Eysteins fór fram frá Keflavíkurkirkju 15. júní 2012.

Elsku pabbi.

Mig langar að kveðja þig með nokkrum orðum. Ég fékk ekki tækifæri til að alast upp hjá þér og kynntist þér frekar seint. Ferðirnar mínar norður í Garð þegar ég var barn voru einu skiptin sem ég hitti á þig. Í hvert sinn var ég óskaplega spennt og hlakkaði til. Mín fyrsta spurning til Ástu og Valda var ævinlega: Hvenær koma Eysteinn og Alda? Vonbrigðin voru ávallt sár ef ekki var von á ykkur á sama tíma og ég átti viðdvöl.

Þú bjóst í öðrum landshluta og við áttum þess vegna ekki hægt um vik að hittast. Þegar þú fluttir suður tók ég sjálf upp á því að koma og varð helgarstelpa hjá ykkur. Ég man enn og er óskaplega þakklát fyrir hversu vel mér var tekið. Ég man ég elti þig um allt jafnvel út í bílskúr og þú varst stundum undrandi á að ég nennti að hanga yfir þér meðan þú varst að gera við. En ég var heilluð af þér og verksviti þínu. Þú varst afskaplega handlaginn og það var sama hver hluturinn var og hversu flókinnar viðgerðar var þörf, þú gast fundið út úr því. Ég er svo heppin að hafa erft hluta af þessu og ég þakka þér þá hæfileika sem hafa orðið grunnurinn að ævistarfi mínu. Þú smíðaðir innréttingar, gerðir við bíla og gömul hús og ég elskaði að skoða verkfærin þín. Þau voru dýrgripir, gömul og ofboðslega vel meðfarin.

Eftir því sem árin liðu varð sambandið nánara og Alda, þín einstaka kona, varð börnunum mínum besta amma. Systkini mín urðu vinir sem ég met meira en flesta aðra. Ég hef orðið ríkari fyrir að hafa fengið að kynnast ykkur og eftir að þú komst inn í líf mitt fann ég hversu verðmætt það er að eiga góða fjölskyldu. Þó við þekktumst ekki vel fyrstu ár ævi minnar varstu samt alltaf pabbi og ávallt góður við mig. Nú er kominn tími til að kveðja og söknuðurinn er mikill. Ég sakna þín en ég ylja mér við minningarnar um samtölin tvö sem við áttum nýlega. Við náðum þá að tala vel saman og ég fékk tækifæri til að segja þér hversu vænt mér þótti um þig.

Kveðja.

Þín dóttir,

Sigurveig.