Egill Ólafsson egol@mb.

Egill Ólafsson

egol@mb.is

Sérstakur saksóknari hafði betur í einum anga af mörgum í Vafningsmálinu svokallaða þegar hann fékk leyfi Héraðsdóms Reykjavíkur til að leggja fram greinargerð um rannsókn Vafningsmálsins og hæfi tveggja manna sem unnu við rannsóknina. Verjendur Lárusar Welding og Guðmundar Hjaltasonar höfðu krafist þess að greinargerðinni yrði vísað frá enda væri hún marklaust plagg.

Lárus og Guðmundur eru ákærðir fyrir umboðssvik með því að hafa lánað félagi Milestone-samstæðunnar 10 milljarða skömmu fyrir fall bankans og þannig stefnt fé bankans í stórfellda hættu. Félagið Vafningur yfirtók síðar lánið.

Beggja handa járn

Verjendur þeirra hafa krafist þess að málinu verði vísað frá enda sé rannsókn þess stórgölluð. Hafa þeir harðlega gagnrýnt störf tveggja fyrrverandi rannsakenda í málinu sem tóku að sér störf fyrir þrotabú Milestone um leið og þeir störfuðu að rannsókninni hjá sérstökum saksóknara.

Í gærmorgun átti að taka frávísunarkröfuna fyrir en úr því varð ekki þar sem saksóknari bað um að fá að leggja fram sérstaka greinargerð sem hann hafði látið vinna um rannsóknina og hæfi rannsakenda. Þessu mótmæltu verjendur harðlega og sögðu óeðlilegt að sérstakur saksóknari rannsakaði sjálfur hæfi starfsmanna sinna. Málið snerist heldur ekki aðeins um hæfi tvímenninganna heldur einnig Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara og trúverðugleika embættisins.

Tekist var á um framlagninguna fyrir hádegi en síðdegis kvað dómari upp þann úrskurð að framlagning væri heimil. Sá úrskurður verður væntanlega kærður til Hæstaréttar.