Rúnar Bjarnason, fyrrverandi slökkviliðsstjóri í Reykjavík, fæddist í Reykjavík 5. nóvember 1931. Hann andaðist á Landspítalanum 31. maí 2012.

Útför Rúnars fór fram frá Dómkirkjunni 12. júní 2012.

Látinn er Rúnar Bjarnason, fv. slökkviliðsstjóri Reykjavíkur og einn af frumkvöðlum handknattleiksíþróttarinnar á Íslandi. Rúnar lék handknattleik á yngri árum svo á námsárum sínum í efnaverkfræði við Kungliga Tekniska Högskolan í Stokkhólmi. Rúnar var virkur þátttakandi í stofnun Handknattleikssambands Íslands árið 1957 og var valinn í fyrstu stjórn sambandsins ásamt þeim Árna Árnasyni, Ásbirni Ólafssyni, Hallsteini Hinrikssyni og Sigurði Norðdahl, sem allir eru látnir. Rúnar sat í stjórn HSÍ samfleytt í fimmtán ár til og með ársins 1972 og var á tíma varaformaður HSÍ. Rúnar tók virkan þátt í landsliðsstarfsemi handknattleikssambandsins á þessum tíma, en eitt fyrsta verkefni nýkjörinnar stjórnar HSÍ var undirbúningur og þátttaka karlalandsliðs okkar í heimsmeistarakeppninni í Austur-Þýskalandi 1958, þar sem liðið stóð sig vel og sigraði m.a. Rúmena. Rúnar var oft fararstjóri landsliða okkar í keppnisferðum erlendis svo og á Ólympíuleikunum í München 1972, þegar karlalið okkar tók þátt í fyrsta sinn í handboltakeppni Ólympíuleika sem varð það ár föst keppnisgrein leikanna. Aðrir fararstjórar liðsins voru Einar Th. Mathiesen, Hjörleifur Þórðarson og Jón Erlendsson, sem allir eru látnir. Við leikmenn landsliðsins og þjálfari liðsins, Hilmar Björnsson, minnumst þeirra félaga með virðingu. Áhugavert er að hugsa til þess núna fjörutíu árum síðar þegar „strákarnir okkar“ hafa unnið sér þátttökurétt í sjöunda sinn í handbolta á Ólympíuleikunum í London af ellefu leikum frá 1972, að aðeins tvær þjóðir hafa oftar unnið sér þátttökurétt á þessum tíma í handbolta á Ólympíuleikum; Spánverjar tíu sinnum og Svíar átta sinnum. Nokkrar þjóðir hafa tekið jafn oft þátt og Ísland eða sjö sinnum.

Rúnar Bjarnason var einn af fjölmörgum frumkvöðlum handknattleiksíþróttarinnar á Íslandi sem nú er viðurkennd sem „þjóðaríþrótt okkar“. Í nýútkominni „Handboltabók – Sögu handknattleiks á Íslandi 1920-2010“ er allra þessara frumkvöðla getið og ómetanlegra sjálfboðaliðastarfa þeirra handboltanum á Íslandi til heilla. Verður þeirra ávallt minnst sem slíkra.

Við landsliðsmenn í handbolta á Ólympíuleikunum í München 1972 og þjálfari vottum látnum forystumanni handboltans á Íslandi virðingu okkar og börnum Rúnars og Guðlaugu eiginkonu hans, þeim Önnu Gullu og Gylfa, börnum þeirra og fjölskyldum, ættingjum og vinum svo og öllum áhugamönnum um velferð handknattleiksíþróttarinnar okkar innilegustu samúð.

Jón Hjaltalín Magnússon.