Nærri Ármenningurinn Ásdís Hjálmsdóttir hafnaði í 13. sæti í undankeppni spjótkastsins á EM í gær en tólf komust áfram í úrslitin á morgun.
Nærri Ármenningurinn Ásdís Hjálmsdóttir hafnaði í 13. sæti í undankeppni spjótkastsins á EM í gær en tólf komust áfram í úrslitin á morgun. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM Í FRJÁLSUM Ívar Benediktsson iben@mbl.

EM Í FRJÁLSUM

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Ég er fyrst og fremst ánægður með hvað þrautin var jöfn og góð, hún hefur runnið vel í gegn og vonandi tekst mér að halda áfram á sömu braut á morgun,“ sagði Einar Daði Lárusson, tugþrautarmaður úr ÍR, eftir að fyrri keppnisdegi lauk hjá honum á Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum í Helsinki í Finnlandi í gær.

Einar Daði, sem er aðeins 21 árs gamall, er í 9. sæti með 4.097 stig og er aðeins 33 stigum frá sínum besta árangri eftir fyrri keppnisdag í tugþraut.

„Ég nýt þess fyrst og fremst að keppa og fá reynslu því það er ekkert sjálfgefið að vera í þeim hóp sem er að keppa í tugþrautinni á þessu móti. Markmiðið er að halda jafnvægi í þrautinni á morgun, ef það tekst þá verð ég sáttur við niðurstöðuna,“ sagði Einar Daði sem er að taka þátt í sínu fyrsta stórmóti í flokki fullorðinna. Spurður hvort hann leiddi eitthvað hugann að lágmarksárangri fyrir Ólympíuleikanna, en Einar Daði var aðeins 53 stigum frá ÓL-lágmarki fyrir skömmu, sagði hann svo ekki vera.

Einar byrjaði daginn á því að hlaupa 100 metrana á 11,11 sekúndum og bæta sinn fyrri árangur verulega. Þá stökk hann 7,33 metra í langstökki og varpaði síðan kúlunni, 13,65 metra í lokaumferðinni eftir að hafa varpað mun styttra í fyrstu tveimur tilraununum. „Ég er mjög ánægður með hversu vel hann bjargaði sér úr þeim vanda sem hann var kominn í með kúluvarpið og sömu sögu er að segja um langstökkið því það var svo misvindasamt meðan á því stóð,“ sagði Þráinn Hafsteinsson, þjálfari Einars Daða, sem er með honum í för í Helsinki.

Eftir kúluvarpið tók við hástökk og þar stökk hann hæst yfir 2 metra slétta. „Þegar hækkað var í 2,03 þá fór að rigna eins og hellt væri úr fötu í nokkrar mínútur og þar með var ljóst að erfitt yrði hjá honum að fara hærra. En hann á meira inni í hástökkinu og vissulega hefði verið frábært ef hann hefði farið yfir 2,03 metra,“ sagði Þráinn efnnfremur.

Einar Daði lauk síðan deginum á að hlaupa 400 m á 49,07 sekúndum og bæta sinn fyrri árangur í greininni um níu hundraðshluta úr sekúndu.

„Við erum bara mjög sáttir við fyrri daginn. Hann er á áætlun. Okkar markmið fyrirfram var að ná svipuðum árangri og í síðustu þraut og það má segja að hann sé á pari eftir fyrri daginn,“ sagði Þráinn Hafsteinsson ennfremur.

Ásdís rétt missti af úrslitunum

Annað stórmótið í röð var Ásdís Hjálmsdóttir, Íslandsmethafi í spjótkasti úr Ármanni, hársbreidd frá því að komast í úrslit. Hún náði ekki að töfra fram sitt besta í undankeppninni í gær og kastaði lengst 55,29 metra og hafnaði í 13. sæti eins og í undankeppni spjótkastsins á heimsmeistaramótinu á síðasta ári.

Þetta var hundlélegt

Kúluvarparinn Óðinn Björn Þorsteinsson, úr FH, náði sér alls ekki á strik í undankeppni kúluvarpsins í gærmorgun. Hann náði aðeins einu gildu kasti og það mældist 18,19 metrar í annarri umferð.

Óðinn hafnaði í 22. sæti af 24 keppendum. „Þetta var hundlélegt,“ sagði Helgi Þór Helgason, þjálfari Óðins Björns, í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Við höfum enga skýringu en það er ljóst að það er einhvers staðar veikur hlekkur hjá okkur. Við höfum næstu vikur fram að Ólympíuleikunum til þess að leita hans og laga. Hann verður að koma í leitirnar sem fyrst,“ sagði Helgi Þór sem hafði þegar í gær farið rækilega yfir málin með lærisveini sínum sem náð hafði ágætum árangri á nokkrum mótum fyrir Finnlandsferðina.

Trausti bætti sig um þriðjung úr sekúndu

Trausti Stefánsson, FH, hljóp á 48,17 sekúndum í undanrásum í 400 m hlaupi á Evrópumeistaramótinu í í gærmorgun og hafnaði í 27. sæti af 37 keppendum, þar af voru sjö dæmdir úr leik leik. Alls komust 24 áfram í milliriðla.

Trausti, bætti sinn fyrri árangur í 400 m hlaupi utanhúss um nærri þriðjung úr sekúndu.

Fyrri dagur hjá Einari
» 100 m hl - 11,11 sek (836 stig), langstökk - 7,33 m (893 stig), kúluvarp - 13,65 m (707 stig), hástökk - 2,00 m (803 stig), 400 m hlaup - 49,07 (858 stig), samtals 4.097 stig
» Á síðari degi er keppti í 110 m grindahlaupi, kringlukasti, stangarstökki, spjótkasti og 1.500 m hlaupi.