Gunnlaugur Gunnarsson fæddist í Reykjavík 5. janúar 1936. Hann lést á gjörgæsludeild LSH 30. maí 2012.

Gunnlaugur var jarðsunginn frá Fella- og Hólakirkju 8. júní 2012.

Elsku Gulli minn. Nú hefur þú fengið hvíldina. Ekki komumst við í veiðitúrinn í júní eins og við bæði vorum búin að hlakka til, svo ég tali nú ekki um Doddu og Sæma, þau voru orðin spennt líka. Við Sæmi förum í Skorradalinn eftir 25. júní og þú ert velkominn með okkur Gulli, það er nóg pláss í húsbílnum sem er nafni þinn og þar er gott að vera. Ég reikna með að þú finnir bestu veiðisvæðin eins og alltaf. Mér er í fersku minni þegar þú og Dodda komuð austur, ég var níu eða tíu ára, þá voruð þið Dodda nýbúin að festa kaup á æðislegum amerískum kagga, já svona kagga sá maður bara í gömlum leikarablöðum á mynd. Ég man það svo vel hvað ég suðaði í þér og Doddu að koma í bíltúr, jú Gulli hélt að það væri allt í lagi, bara ef ég gæti bent sér á stað sem væri endalaus sandur. Við hugsuðum málið, jú, mundum eftir Auraselsaurunum, það var akkúrat málið, skelltum okkur af stað, komumst klakklaust á staðinn. Jæja Vigga systir, nú mátt þú. Ég settist í bílstjórasætið, setti í „dræfið“, bensínið í botn og kagginn þaut áfram á ofsa hraða út aurana með Gulla bróður og Doddu mágkonu æpandi aftur í. Já, þvílíkt frelsi, þvílík tilfinning, ég held að þarna hafi ég fundið það eina sanna frelsi, ég hef illa þolað höft síðan.

Takk fyrir að hafa átt þig að bróður í 68 ár,

elsku Gulli minn. Ég man að síðustu orðaskiptin okkar voru í síma nokkru fyrir andlát þitt. Ég sagði við þig að við hittumst ekki nógu oft, það er rétt hjá þér, þau skipti hefðu mátt vera fleiri. Elsku Dodda og börn og aðrir ættingjar, ég og Sæmi vottum ykkur öllum samúð. Guð geymi þig, elsku Gulli minn.

Kveðja,

Vigdís Unnur

Gunnarsdóttir

og Sæmundur Harðarson.