Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Eftir Guðmund Karl Jónsson: "Skammarlegt er að fjármála- og sjávarútvegsráðherra skuli nota umferðaröryggi sem kítti í sínum málflutningi fyrir pólitískri vegagerð eins og Vaðlaheiðargöngum."

Ég segi það strax án nokkurs formála að engin skynsemi er í því að setja Vaðlaheiðargöng í einkaframkvæmd til að bæta enn einu samgönguhneykslinu við eftir að útboð Héðinsfjarðarganga snerist upp í kostnaðarsöm málaferli. Félög sem voru stofnuð í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum geta ekki sýnt fram á að umferð í Vaðlaheiðargöngum nái þeim heildarfjölda ökutækja sem fer á einum degi í gegnum Hvalfjarðargöngin. Hingað til hafa þingmenn Norðausturkjördæmis aldrei kynnt sér hvort alltof fáir bílar séu í umferð á Eyjafjarðarsvæðinu og í sveitunum austan Vaðlaheiðar til þess að stofnendur fyrirtækja í fámennum sveitarfélögum úti á landi ráði við rekstur og fjármögnun samgöngumannvirkja sem geta kostað 10 milljörðum meira en Hvalfjarðargöngin. Utan höfuðborgarsvæðisins er meðalumferð á sólarhring alltof lítil til þess að innheimta vegtolla á hvert ökutæki standi undir fjármögnun og rekstri einkaframkvæmda í litlum sveitarfélögum. Fyrir löngu hefði þingmönnum Norðausturkjördæmis átt að vera ljóst að hugmyndin um að reka Vaðlaheiðargöng sem einkaframkvæmd yrði dæmd dauð og ómerk. Ríkisábyrgðin sem fjármálaráðherra og sjávarútvegsráðherra berjast fyrir verður kölluð kosningavíxill Steingríms J.

Til þess að rekstur ganganna undir Vaðlaheiði standi undir launum starfsmanna, viðhaldi, afborgunum og vöxtum þarf meðalumferðin milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals að vera minnst 12 þúsund bílar á dag. Aðferðin sem notuð er til að sýna fram á að 1000 króna veggjald á hvern bíl geti staðið undir rekstri ganganna fær falleinkunn.

Skammarlegt er að fjármála- og sjávarútvegsráðherra skuli nota umferðaröryggi sem kítti í sínum málflutningi fyrir pólitískri vegagerð eins og Vaðlaheiðargöngum. Bornar eru á borð óljósar fullyrðingar um arðbæra fjárfestingu, þjóðhagslega hagkvæmt verkefni, sem verði atvinnuskapandi og byggðasjónarmið.

Varðandi þetta áhættusama verkefni eru mörg axarsköft í farvatninu. Fyrir 16 árum voru Hvalfjarðargöng byggð á viðskiptalegum forsendum sem stóðust án ríkisábyrgðar. Raunveruleg ástæða fyrir því að setja Vaðlaheiðargöng í einkaframkvæmd er allt önnur heldur en þingmenn Norðausturkjördæmis halda fram. Þegar þrengir að er síðan reynt að fegra málið og þeir sem efasemdir hafa um innheimtu vegtolla á hvern bíl í fámennum sveitarfélögum eru taldir óæskilegir. Margir fyrrverandi þingmenn Norðurlands eystra héldu því fram fyrir meira en 15 árum að Vaðlaheiðargöng myndu styrkja allt kjördæmið sitt sem öflugt mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Til þess þarf önnur jarðgöng úr Hjaltadal yfir í Hörgárdal sem styrkja byggðir Eyjafjarðar og Skagafjarðar enn betur en Héðinsfjarðargöngin. Víkurskarð er ekki jafnstórt vandamál og vegirnir sunnan Múlaganganna og í Almenningum vestan gömlu Strákaganganna sem vonlaust er að treysta alla vetrarmánuðina vegna hættu á grjóthruni, aurskriðum og snjóflóðum. Vegurinn í skarðinu milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals hefur ekkert með umferðaröryggi að gera í samanburði við slysahættuna norðan Dalvíkur, Siglufjarðar og vestan Strákaganganna. Vegna hugmynda um hótelbyggingu á Siglufirði sem hafa verið kynntar í fjölmiðlum skiptir mestu máli að komið verði í veg fyrir að Fjallabyggð einangrist við byggðir Eyjafjarðar og Skagafjarðar áður en tími Vaðlaheiðar kemur.

Þingmenn Norðausturkjördæmis skulu standa saman og flytja þingsályktunartillögu um tvíbreið veggöng 3 km norðan Dalvíkur og undir Siglufjarðarskarð ef þeir ætlast til þess að Eyfirðingar samþykki sameiningu við Fjallabyggð næstu árin. Sunnan Múlaganganna flýta snjóflóðaskáparnir frekar fyrir því að aurskriður eyðileggi alla vegtengingu nýja sveitarfélagsins við Eyjafjörð um ókomin ár. Við þessu skulu þingmenn Norðausturkjördæmis bregðast í stað þess að berjast gegn því að Norðfjarðar- og Dýrafjarðargöng verði tekin á undan Vaðlaheiðargöngum. Samgöngumálum Austfirðinga og Vestfirðinga er haldið í heljargreipum af ráðherrum Vinstri Grænna sem vita ekki sitt rjúkandi ráð og vilja um leið bregða fæti fyrir uppbyggingu atvinnuveganna utan höfuðborgarsvæðisins. Einangrun Fjallabyggðar við landsbyggðina í heild taka þeir frekar fram yfir tvíbreið jarðgöng nær Dalvík og undir Siglufjarðarskarð sem skal ákveða á undan Vaðlaheiðargöngum.

Höfundur er farandverkamaður.

Höf.: Guðmund Karl Jónsson