Kántrítónar Liðsmenn Klaufa, þeir Sigurgeir Sigmundsson, Friðrik Sturluson, Birgir Nielsen, Kristján Grétarsson og Guðmundur Annas Árnason ásamt texta- og lagasmiðnum Kristjáni Hreinssyni.
Kántrítónar Liðsmenn Klaufa, þeir Sigurgeir Sigmundsson, Friðrik Sturluson, Birgir Nielsen, Kristján Grétarsson og Guðmundur Annas Árnason ásamt texta- og lagasmiðnum Kristjáni Hreinssyni.
„Við Klaufar og Kristján Hreinsson skáld leiddum saman hesta okkar undir lok síðasta árs og þetta er afraksturinn,“ segir Guðmundur Annas Árnason, söngvari og gítarleikari Klaufa, um nýútkominn disk hljómsveitarinnar sem nefnist Óbyggðir .

„Við Klaufar og Kristján Hreinsson skáld leiddum saman hesta okkar undir lok síðasta árs og þetta er afraksturinn,“ segir Guðmundur Annas Árnason, söngvari og gítarleikari Klaufa, um nýútkominn disk hljómsveitarinnar sem nefnist Óbyggðir .

„Þetta er þriðji diskurinn okkar, en áður hafa komið út Hamingjan er björt árið 2007 og Síðasti mjói kaninn árið 2008. Á þeim vorum við einvörðungu með ábreiður, þ.e. tókum vinsæl íslensk og erlend dægurlög og settum í kántríbúning. En ólíkt fyrri diskum þá er allt efnið á nýja disknum frumsamið,“ segir Guðmundur og tekur fram að Kristján eigi alla textana nema einn sem sé eftir Jónas Friðrik, auk þess sem Kristján eigi flestöll lögin, en Guðmundur samdi þrjú þeirra.

„Þetta er létt tónlist og kántrískotin, sem höfða ætti til almennings. Textarnir eru óður til íslenska hestsins og íslenskrar náttúru, en auðvitað kemur ástin líka við sögu,“ segir Guðmundur og tekur fram að hópur valinkunnra tónlistarmanna aðstoði Klaufa á disknum. „Þannig útsetti Magnús Kjartansson raddirnar á plötunni sem hestamannakórinn Brokkkórinn syngur. Okkur fannst mjög viðeigandi að fá Magnús Eiríksson til þess að syngja með mér dúett í titillagi plötunnar. Það kom síðan ekkert annað til greina en að leita til Selmu Björnsdóttur sem er Dolly Parton Íslands og fá hana til að syngja með mér annan dúett. Auk þess syngja Eyjólfur Kristjánsson og Stefán Hilmarsson bakraddir þannig að það er einvalalið sem kemur að þessari plötu.“

Spurður hvort Klaufar hafi sérstaklega stílað inn á útgáfu í aðdraganda Landsmóts hestamanna í Reykjavík svarar Guðmundur því neitandi og tekur fram að um hreina tilviljun hafi verið að ræða. „Diskurinn var miklu frekar hugsaður fyrir sumarið, enda kjörið að láta hann hljóma í græjunum í bílnum á ferðalagi um landið,“ segir Guðmundur, en tekur fram að hins vegar sé mjög viðeigandi að Klaufar troði upp fyrir hestamenn.

„Við munum þannig taka þátt í kvöldvöku á fimmtudags- og laugardagskvöld á landsmótinu og í framhaldinu slá upp sannkölluðu hlöðuballi á SPOT í Kópavogi á laugardagskvöldið,“ segir Guðmundur og bætir við að hljómsveitin sé auk þess að leggja drög að formlegum útgáfutónleikum á næstu vikum. „Okkur langar til að halda þá bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi og skemmtilegast væri auðvitað að fá alla gestasöngvarana til liðs við okkur. Það kallar hins vegar á ákveðið púsluspil þar sem flestir eru mjög uppteknir yfir sumartímann. En tímasetningin ætti að skýrast mjög fljótlega.“ silja@mbl.is