Söguleikhús Bjarni Haukur Þórsson kennir útlendingum, og Íslendingum líka, hvernig maður getur orðið Íslendingur á einni klukkustund í einleik sem sýndur er í Hörpu í sumar.
Söguleikhús Bjarni Haukur Þórsson kennir útlendingum, og Íslendingum líka, hvernig maður getur orðið Íslendingur á einni klukkustund í einleik sem sýndur er í Hörpu í sumar. — Morgunblaðið/Kristinn
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Hvernig getur maður orðið Íslendingur á einni klukkustund? Því svarar leikarinn Bjarni Haukur Þórsson í einleik sínum How to become Icelandic in 60 minutes sem frumsýndur var í Hörpu 19. maí sl.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Hvernig getur maður orðið Íslendingur á einni klukkustund? Því svarar leikarinn Bjarni Haukur Þórsson í einleik sínum How to become Icelandic in 60 minutes sem frumsýndur var í Hörpu 19. maí sl.

Leikstjóri einleiksins er Sigurður Sigurjónsson en þeir Bjarni hafa unnið saman að nokkrum sýningum. Bjarni leikstýrði Sigurði í einleik sínum Afinn í Borgarleikhúsinu og Sigurður leikstýrði Bjarna í Pabbanum sem Bjarni samdi einnig og í einleiknum Hellisbúinn árið 1998. Félagarnir munu setja upp verk í haust í Borgarleikhúsinu sem verður ekki einleikur, að sögn Bjarna.

How to become Icelandic in 60 minutes er fluttur á ensku, eins og titill verksins ber með sér og má því gera ráð fyrir að áhorfendur séu að megninu til útlendingar. Bjarni segir Íslendinga þó einnig hafa sótt sýningar enda efnið forvitnilegt. „Þetta er svona söguleikhús með uppistandsívafi,“ segir Bjarni um verkið.

Ekki sammála um neitt

En hvernig verður maður að Íslendingi á 60 mínútum? „Þú verður bara að koma á sýninguna,“ segir Bjarni og hlær kvikindislega. Blaðamaður biður hann um dæmi. „Ég brýt þetta niður í svona fimmtán atriði. Eitt atriði er t.d., eins og ég segi við fólkið, að við erum yfirleitt ekki sammála um neitt, sérstaklega núna erum við rosalega góð í því að rökræða og þegar þú ert orðinn Íslendingur ertu orðinn expert varðandi allt. Það er sama hvaða umræða kemur upp, þú veist allt best, sama hvert umræðuefnið er,“ segir Bjarni.

-Hinn dæmigerði Íslendingur er sem sagt „besserwisser“?

„Ja, hann veit svolítið um allt. Svo trúum við því að við séum miðdepill alheimsins, stærst og best, þannig að fólk sem kemur á sýninguna frá Spáni, Frakklandi eða Englandi, frá svona litlum löndum, verður að hugsa stærra ætli það sér að verða Íslendingar.“

-Nú er Siggi Sigurjóns að leikstýra þessu, kom hann með innlegg í handritið?

„Já, já, já. Þetta er nú ekki í fyrsta skipti sem við vinnum saman þannig að við erum nú vanir að fara í gegnum hlutina saman og bæta í og strika út og allt það.“ Sigurður hafi enda velt sér upp úr hegðunarmynstri íslensku þjóðarinnar í þrjátíu ár eða rúmlega það, sem meðlimur Spaugstofunnar.

Engin útrás

-Talandi um eðli Íslendingsins, ætlar þú í útrás með þennan einleik?

Bjarni hlær. „Það er nú ekkert niðurneglt. Ég lít nú ekki á þetta sem einhverja útrás hjá mér, framleiðendur erlendis hafa sett upp sum verk eftir mig,“ segir Bjarni, lítt hrifinn af orðinu „útrás“ og segir það hafa fengið á sig heldur neikvæðan stimpil hin síðustu ár.

Upplýsingar um sýningar á einleiknum má finna á vef Hörpu, harpa.is.

howtobecomeicelandic.is