[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir 3 tíma svefn förum við út á flugvöll og fáum svo hræðilegt cappuccino á Starbucks að ég er helst á því að nú verði ég að gefa kaffi á bátinn

Söngkonan Sunna Gunnlaugs hefur verið á tónleikaferð um Bandaríkin til að fylgja eftir disknum Long Pair Bond. Með í för eru Scott McLemore trommari og Þorgrímur „Toggi“ Jónsson bassaleikari. Hafa þau komið við á stöðum eins og Kaliforníu, Oregon og Detroit og eru þessa dagana að þræða austurströnd Bandaríkjanna. Finnur fékk að heyra hvernig túrinn gengur.

Mánudagur: Fórum snemma á fætur og héldum af stað til útvarpsstöðvarinnar KCSM þar sem ég er gestur í þættinum Desert Island Picks. Skellum okkur í vínsmökkun hjá Hawley's þar sem þetta fína píanó er til staðar og ég tek lagið.

Þriðjudagur: Við höldum áfram að keyra norður. Ég veit ekki hvað er áhrifamest, sólóbreik Bud Powells í laginu Celia, sjúklega gott handgert súkkulaði sem aðdáandi gaf okkur í Berkeley, öldurnar á Kyrrahafinu, elgarnir að tjilla við veginn eða stærðin á Redwood -trjánum.

Miðvikudagur: Toggi er að brenna upp í sólinni svo að það er hlaupið út í apótek honum til bjargar. Við sjáum St. Helens í fjarlægð en meira verður ekki úr túristaathöfnum.

Fimmtudagur: Eftir tónleika fáum við okkur lífrænt súkkulaði og rauðvín frá Hawley. Flug til Detroit kl. 6 næsta morgun svo að við erum einungis 12 tíma í Seattle.

Föstudagur: Eftir 3 tíma svefn förum við út á flugvöll og fáum svo hræðilegt cappuccino á Starbucks að ég er helst á því að nú verði ég að gefa kaffi á bátinn.

Laugardagur: Eftir 4 tíma svefn brunum við til Kanada. Landamæradaman grillar okkur grimmt. Rétt fyrir utan hátíðina sem við eigum að spila á er vegurinn lokaður. Smá panik og vafaatriði hvort við náum gigginu en þetta rétt sleppur fyrir horn.

Sunnudagur: Þvílíkur lúxus að fá að sofa í 8 tíma. Keyrum til Rochester með smá stoppi við Niagara-fossana. Sáum á netinu að New York tónleikar okkar eru í úrvalinu hjá Time Out New York. Geðveikt!

ai@mbl.is