Fær Hildur skapar fjölbreyttan og víðattumikinn hljóm á plötunni sem magnast upp þegar á líður.
Fær Hildur skapar fjölbreyttan og víðattumikinn hljóm á plötunni sem magnast upp þegar á líður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þrátt fyrir að vera einungis rétt um þrítugt hefur sellóleikarinn og tónlistarkonan Hildur Guðnadóttir komið víða við á löngum ferli.

Þrátt fyrir að vera einungis rétt um þrítugt hefur sellóleikarinn og tónlistarkonan Hildur Guðnadóttir komið víða við á löngum ferli. Bæði hefur hún starfað með fjöldanum öllum af tónlistarmönnum og hljómsveitum ásamt því að hafa verið iðin við útgáfu upp á eigin spýtur. Nýjasta afurð hennar platan Leyfðu ljósinu, kom út á dögunum á vegum hinnar virtu Touch útgáfu í London (þess má geta að umslagið sem er sérlega vel heppnað er hannað af Jon Wozencroft stofnanda útgáfunnar), hefur vakið töluverða eftirtekt. Það er ekki að ósekju og ekki síst þegar haft er í huga að tónlistin, sem er í tveimur hlutum: forspili og verkinu Leyfðu ljósinu sem er um 35 mínútur að lengd, er flutt í einni töku og án þess að átt hafi verið við upptökuna. Þetta er tekið fram á umslagi plötunnar og hefur veruleg áhrif á upplifunina við hlustunina. Hlustandinn fær einhvernveginn sterkt á tilfinninguna að hún sé bara ein í upptökusalnum að framkalla þessi hljóð og nálægðin verður meiri fyrir vikið. Hildur notast við hjálpartæki sem gera henni kleift að hlaða upptökum af rödd sinni og sellóleiknum upp og eiga við þær svo að útkoman verður á köflum eins og fjölmenn strengjasveit sé að flytja verkið. Þá skapar hún víðáttumiklar hljóðmyndir í ætt við ambient úr smiðju Brian Eno.

Þrátt fyrir að vera bara ein á sviðinu að spila eitt verk sem byggist hægt upp er furðu mikil fjölbreytni í tónlistinni sem magnast upp í dramatískan lokakafla. Það er erfitt ef ekki ómögulegt að finna veikan blett á plötunni þó augljóslega sé þetta ekki músík sem er krefjandi. Svo þegar haft er í huga hvernig að henni var staðið er erfitt að segja annað en: vel gert Hildur! - og vonast til að sem flestir stígi úr skugganum og Leyfi ljósinu.

Hallur Már

Höf.: Hallur Már