— Morgunblaðið/Kristinn
Landsmót hestamanna er haldið á keppnissvæði Fáks í Víðidal í Reykjavík í ár. Mótið í ár er það tuttugasta sem haldið hefur verið og er það að vanda glæsilegt og fjölmennt.

Landsmót hestamanna er haldið á keppnissvæði Fáks í Víðidal í Reykjavík í ár. Mótið í ár er það tuttugasta sem haldið hefur verið og er það að vanda glæsilegt og fjölmennt. Ómissandi liður í landsmóti er Landsmótsballið en það fer fram í Laugardalshöll laugardaginn 30. júní. „Það hafa alltaf verið böll á landsmóti en kannski ekki í þessari mynd sem núna er. Það er alltaf mikil stemning og stuð á þessum böllum eins og er í dalnum sjálfum,“ segir Rúnar Sigurðsson, formaður hestamannafélagsins Fáks. Fjöldi þekktra hljómsveita kemur fram á ballinu, m.a Helgi Björns og Reiðmenn vindanna, Páll Óskar, KK og Maggi Eiríks og SS Sól.

„Verðlaunaafhendingar fara fram á laugardeginum og sunnudeginum og því vel við hæfi að skemmta sér vel fyrir síðasta daginn. Nú verður sú nýbreytni á lokadeginum að við afhendum Landsmótsfánann til Hellumanna sem halda mótið næst. Svona eins og gert er á Ólympíuleikunum.“