Ljósmyndasýningin Lystisemdir verður opnuð á útisvæðinu við Cafe Björk í Lystigarðinum á Akureyri á morgun kl. 16.

Ljósmyndasýningin Lystisemdir verður opnuð á útisvæðinu við Cafe Björk í Lystigarðinum á Akureyri á morgun kl. 16. Þar sýna fimmtán ÁLFkonur, en skammstöfunin stendur fyrir Áhugaljósmyndarafélag fyrir konur á Eyjafjarðarsvæðinu, og er félagskapur kvenna sem eiga það sameiginlegt að hafa áhuga á að festa allt milli himins og jarðar á filmu.

Samkvæmt upplýsingum frá hópnum hefur hann starfað saman frá hausti 2009, myndað mikið, ferðast og haldið nokkrar sýningar og er þetta sjötta samsýning hópsins.

Sýningin Lystisemdir er hluti af 100 ára afmæli Lystigarðsins á Akureyri, 150 ára afmæli Akureyrarbæjar og sýningunni Allt+ sem skipulögð er af Sjónlistamiðstöðinni.

Hægt er að skoða myndirnar fram til 3. september og er hún opin á opnunartíma Lystigarðsins milli kl. 8 - 23 alla daga vikunnar. Aðgangur er ókeypis.