Metnaður Eygló segir vera bæði kostnaðarsamt og vandasamt að koma hönnun á framfæri erlendis. Gæfan hafi verið henni hliðholl til þessa.
Metnaður Eygló segir vera bæði kostnaðarsamt og vandasamt að koma hönnun á framfæri erlendis. Gæfan hafi verið henni hliðholl til þessa. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Mikill áhugi landsmanna á íslenskri hönnun er vítamínsprauta • Tískumerkið EYGLO er byrjað að nema land erlendis • Mikið gæfuspor að opna sameiginlega verslun í miðbænum með öðrum íslenskum hönnuðum • Rekst á hindranir við sendingar á sýnishornum til og frá landinu

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Í um hálfan áratug hefur Eygló Margrét Lárusdóttir unnið hörðum höndum að því að byggja upp eigin hönnunarmerki, EYGLO (www.eyglocollection.com). Eftir mikið streð er hún nú búin að koma sér ágætlega fyrir og vel í stakk búin til að láta rækilega að sér kveða.

„Ég byrjaði á þessu strax að loknu hönnunarnámi árið 2006, en það er ekki fyrr en síðustu tvö árin að EYGLO-merkið fer að verða eitthvað meira. Ein stærsta breytingin varð árið 2010 þegar ég opnaði með átta öðrum fatahönnuðum verslunina Kiosk á Laugavegi. Þar seljum við hönnun okkar og skiptumst á að standa vaktina í búðinni,“ segir Eygló en hönnun hennar er einnig fáanleg í New York og Kaupmannahöfn. „Í sumar bætist svo Berlín við listann, en þar er bara um að ræða skammtímaverkefni.“

Fyrirtæki Eyglóar samanstendur af henni og klæðskeranema sem starfar tímabundið hjá merkinu við verkefnavinnu. Eygló hreppti á dögunum Árórustyrk frá Hönnunarmiðstöð og verður fjármagnið notað til að búa jarðveginn fyrir sölu á erlenda markaði, og fyrir sérfræðiráðgjöf.

Með augun á framleiðslunni

Tvær verksmiðjur í Eistlandi sjá um framleiðsluna og segir Eygló að hún hafi valið þann kost þó að ódýrara gæti verið að framleiða fatnaðinn í Asíu. „Kosturinn við Eistland er að ég get haft betri gætur á framleiðsluferlinu. Það er ekki sama hvernig hönnunin mín er sett saman, og gott að geta skotist yfir til Evrópu til að ganga úr skugga um að allt sé í lagi. Þannig er t.d. nýjasta línan mín nokkuð flókin í samsetningu svo ég gerði mér einfaldlega ferð til framleiðendanna og sýndi þeim vandlega hvernig ég vil að staðið verði að saumaskapnum.“

Að deila verslunarrými í Kiosk þýðir líka að alls kyns tækifæri gefast til samstarfs, skrafs og ráðagerða. Ásamt EYGLO er þar að finna merki eins og REY, Shadow Creatures, GoWithJan og Skaparann. „Vitaskuld er mikið hagræði af því að eiga inni í svona verslun, og spara bæði leigu, rekstrarkostnað og laun. Til viðbótar við það skiptumst við á upplýsingum og ráðum, og höldum hvert öðru við efnið, sameinumst jafnvel um innkaup á efnum og samnýtum vörusendingar.“

Ef ekki væri fyrir dyggan stuðning íslenskra neytenda segir Eygló hæpið að hún hefði getað komið merkinu sínu á laggirnar og í framhaldinu freistað gæfunnar á erlendum mörkuðum. Áhugi Íslendinga á verkum íslenskra hönnuða sé mikil vítamínsprauta fyrir þennan geira. „Sérstaklega hefur mátt greina kröftuga vitundarvakningu síðustu árin um gæði og gildi íslenskrar fatahönnunar. Þetta sást sérstaklega vel eftir bankahrun þar sem mjög mikill og almennur áhugi varð á að kaupa íslenskar flíkur.“

Mikilvægir neytendur

Íslenski markaðurinn er líka mjög góður prufumarkaður. Neytendahópurinn er smár en mikill áhugi á nýjungum. „Ég er að selja flíkur til mjög breiðs hóps kvenna, allt frá stúlkum undir tvítugu upp í konur sem komnar eru um og yfir sextugt.“

Ekki veitir af góðum heimamarkaði til að safna kröftum og fjármunum til að grípa tækifærin erlendis. Eygló segir bæði strembið og kostnaðarsamt að koma fatahönnun á framfæri. „Ég hef verið svo heppinn að aðilarnir sem selja hönnunina mína í Kaupmannahöfn og New York komu til mín –það tækifæri lenti einfaldlega í fanginu á mér. Annars getur það verið mikið verkefni að halda út í heim,“ segir hún. „Fyrsta skrefið er oft að taka þátt í svokölluðum „showroom“ viðburði og þar getur bara þátttökugjaldið verið hálf milljón.“

Tískubransinn er látinn mæta afgangi

Ekki bara „dúllugrein“

Íslenskir hönnuðir hafa margir rætt um að skortur sé á fjárfestum sem áhuga hafa á þessum geira. Eygló tekur undir þetta, segir íslenska fatahönnun enn nokkuð ungan iðnað og oft litið á geirann sem hálfgerða „dúllugrein“.

„Þegar tölurnar eru skoðaðar sést hinsvegar að íslensk fatahönnun er í miklum blóma, ört stækkandi og skapar bæði mikil verðmæti og fjölda starfa. Vitaskuld væri æskilegt ef þessi grein atvinnulífsins fengi meiri athygli hjá reyndum fjárfestum, það þarf ekki endilega mikið til að koma mjög efnilegum verkefnum af stað. Fjárfestarnir verða þó að vera þolinmóðir, því uppbygging á tískufyrirtæki tekur sinn tíma.“

Ekki verið að auðvelda kynningarstarfið erlendis

Taugatrekkt í tollinum

Aðstæður eru þannig á Íslandi að eitt og annað er að gera ungum og upprennandi hönnuðum eins og Eygló erfiðara fyrir. Hún segir það t.d. hafa verið ákveðinn þröskuld í upphafi að framboðið af efnum er lítið og verðið mjög hátt miðað við það sem tíðkast annars staðar.

Hönnuðir kvarta líka mikið yfir að rekast á hindranir í samskiptum sínum við tollinn, sem flækir allt markaðs- og kynningarstarf yfir landamæri. „Núna fyrir skömmu var ég t.d. að senda út tvo kjóla í myndatöku fyrir evrópskt tískublað. Þegar kjólarnir komu til baka þurfti ég að standa í miklu basli við að sannfæra Tollinn um að ekki væri um aðkeypta vöru að ræða, sem greiða þyrfti af fulla tolla og gjöld. Sem betur fer hefur mér hingað til alltaf tekist að ná eðlilegri lendingu, en vitaskuld kosta þessar uppákomur vinnutíma og draga úr manni orku.“