Jórunn Lísa Kjartansdóttir
Jórunn Lísa Kjartansdóttir
Eftir Jórunni Lísu Kjartansdóttur: "Það var Ólafur Ragnar Grímsson sem stóð með þjóðinni og kom í veg fyrir það að almenningur á Íslandi yrði gerður ábyrgur fyrir Icesave-skuldinni."

Ólafur Ragnar Grímsson er og hefur ætíð verið umdeildur maður. Hann er ekki fullkominn frekar en forverar hans á Bessastöðum, mótframbjóðendur hans eða við hin ef út í það er farið. Ég hef ekki alltaf verið sátt við hann og var lengi að jafna mig eftir að hann kvæntist Dorrit að mér og þjóðinni forspurðri. Ég var hinsvegar ekki í vafa um það að ég ætlaði að kjósa Ólaf Ragnar þegar ljóst var að hann ætlaði að bjóða sig fram til forseta í fimmta sinn.

Ég drep nú niður penna þar sem ég finn mig knúna til að minna á það að það var Ólafur Ragnar Grímsson sem stóð með þjóðinni og kom í veg fyrir það að almenningur á Íslandi yrði gerður ábyrgur fyrir því að ganga í ábyrgð og greiða himinháa vexti af Icesave-skuldinni. Það virðist vera einhver mikill misskilningur á ferðinni einmitt hvað þetta varðar.

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 21. júní í nafni Guðrúnar Guðlaugsdóttur, blaðamanns og rithöfundar, vísar viðkomandi hofmóðug í forsíðufrétt Fréttablaðsins 19 júní sl., þar sem greint sé frá því að búið sé að greiða helming Icesave-skuldarinnar. Jú, mikið rétt, en það er greitt af þrotabúi Landsbankans, en ekki af þjóðinni sjálfri. Ég hefði nú haldið að það væri mikill munur þar á.

Kastljós, Þóra og Icesave

Greinarhöfundur skautar um leið fram hjá þeirri staðreynd að Þóra Arnórsdóttir var ein þeirra sem stýrðu Kastljósi RÚV í kjölfar hrunsins 2008. Kastljós dró mjög afgerandi taum þeirra íslensku og erlendu spekinga sem töluðu fyrir því að íslensku þjóðinni bæri að greiða þá upphæð sem sett var upp af Bretum og Hollendingum, sem skelfingarstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna lá óskaplega mikið á að samþykkja og undirrita. Ef hún hyggst standa jafnvel með þjóðinni á Bessastöðum og í Kastljósi þá get ég ekki varist því að fá hroll, og það er enginn sæluhrollur.

Fréttamenn sem stjórna slíkum þáttum hafa mikil völd og það er illt að verða vitni að því þegar það er misnotað, og dapurt hvað margir virðast leiða hjá sér. Það er ekkert leyndarmál að fréttamenn og aðrir þáttastjórnendur RÚV hafa staðið þétt við bakið á fyrrgreindri skelfingarstjórn sem hefur verið við völd síðastliðin þrjú ár og þetta ætti öllum vel upplýstum blaðamönnum að vera ljóst.

Það kann að vera að Þóra Arnórsdóttir hafi aldrei verið í Samfylkingunni en hún hefur svo sannarlega stutt flokkinn í verki við störf sín hjá RÚV. Fyrrgreind Guðrún heldur því fram að Þóra muni sameina okkur sem einhuga Íslendinga. Samfylkingin hefur verið grímulaus í því að troða Evrópusambandinu upp á Íslendinga án þess að hafa til þess umboð frá þjóðinni sjálfri. Allur tíminn, allir peningarnir og öll orkan sem farið hefur í þá feigðarför nægir til þess að dæma þessa stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur þá verstu stjórn sem þjóðin hefur þurft að þola. Ég endurtek að það kann vel að vera að Þóra hafi aldrei verið flokksbundin í Samfylkingunni en hún hefur svo sannarlega stutt þann flokk í störfum sínum og því get ég ekki varist þeirri hugsun að Þóra muni slást í för með Samfylkingunni í fyrrgreindri feigðarför. Ég kýs Ólaf Ragnar Grímsson, þar sem ég treysti honum best til að standa með þjóðinni.

Höfundur er BA í bókmenntafræði frá HÍ.

Höf.: Jórunni Lísu Kjartansdóttur