Afl og afbragðs hönnun fara saman undir húddinu.
Afl og afbragðs hönnun fara saman undir húddinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Miðjubróðirinn í jeppa- og jepplingafjölskyldu Audi er Q5. Stóri bróðirinn, sá sem kom fyrstur, er Q7 og minni bróðirinn, sem kom á markað í fyrra, er Q3. Þeir virðast því fara síminnkandi í þessari ágætu fjölskyldu.

Miðjubróðirinn í jeppa- og jepplingafjölskyldu Audi er Q5. Stóri bróðirinn, sá sem kom fyrstur, er Q7 og minni bróðirinn, sem kom á markað í fyrra, er Q3. Þeir virðast því fara síminnkandi í þessari ágætu fjölskyldu. Audi Q5 kom fyrst til sögunnar árið 2009 og er því enn af fyrstu kynslóð. Allir eiga þessir bílar það sameiginlegt með fólksbílum Audi að vera lúxusbílar og mjög vel smíðaðir. Audi Q5 er þó ekki að keppa við neina aumingja í sínum flokki, bíla eins og BMW X3, Volvo XC60, Land Rover Freelander og Range Rover Evoque sem líka eru hlaðnir lúxus og góðir akstursbílar. Reynsluakstursbíllinn var útbúinn 2,0 l. díselvél, þeirri aflminnst sem í boði er en einnig þeirri sparneytnustu.

Innréttingar í sérflokki

Það væri einkennilegt ef ytra útlit Audi Q5 væri ekki fallegt og skæri sig frá öðrum Audi bílum í þeim efnum. Hann er einkar myndarlegur, ber Audi-svipinn og er með mörg gen frá Q7. Stórt grillið er eins og vörumerki Audi nú um stundir og fyrir vikið er hann með kraftalegt nef. Einhvern veginn hefur þeim sem teiknuðu Q5 tekist að hafa hann með léttara yfirbragði en flestir jepplingar bera og hann er eiginlega líkari fólksbíl fyrir vikið. Innréttingar Audi er umtalaðar sem leiðandi í bransanum fyrir fegurð, vandaðan frágang, efnisval og skilvirkni þegar kemur að stjórntækjum.

Innréttingin í Q5 er einmitt í þessum flokki og erfitt að biðja um meira, nema fyrir þá sem kjósa meira áberandi íburð í stað hreinleika í stíl. Framsætin eru mjög góð í bílnum en stærð bílsins leyfir illa að fín aftursætin rúmi vel 3 fullorðna farþega. Sama á við um farangursrými Q5, þar er ekki sérlega stórt en álíka og í mörgum samkeppnisbílum hans.

Undir gólfinu í farangursrými er svokallaður „aumingi“; varadekk sem hentar afar illa íslenskum aðstæðum. Svo illa vildi til að stór nagli vildi endilega eiga heima í öðru framdekki bílsins og við akstur utan höfuðborgarinnar fór allur vindur úr því. Því varð að setja „aumingjann“ undir, sem bæði er tímafrekt þar sem dæla þarf í hann með þar til gerðri dælu. Og það sem verra er, ekki mátti aka bílnum langt með slíkt varadekk, né yfir 80 km hraða. Stórar spurningar vakna ef þetta myndi gerast á miðri heiði mjög fjarri byggð. Svona er þetta reyndar í mjög mörgum nýjum bílum í dag.

Lítil en sparneytin vél

Audi Q5 má fá með þremur gerðum véla, 2,0 l. bensínvél sem er 208 hestöfl, 2,0 l. dísilvél sem er 170 hestöfl og 240 hestafla og 3,0 l. dísilvél. Sá ódýrasti þeirra var eins og reynsluakstursbíllinn, með minni dísilvélinni en greiða þarf þrettán hundruð þúsundum meira fyrir þá stærri, meðan bensínbíllinn liggur þar á milli. Með þessa minni dísilvél er hann engin spíttkerra sem 9,9 sekúndna talan upp í hundraðið segir til um. Engu að síður togar þessi vél vel og er alveg dugandi bílnum. Það er ekki fyrr en hann er beðinn um mikið sem afl skortir og þá er hann líka farinn að eyða langt frá uppgefnum tölum. Það á sem sagt það sama við þennan bíl sem margan annan, að ef taka á hann reglulega til kostanna borgar sig að hafa hann með stóra vél og þá eyðir hann líklega minna fyrir vikið. En ef aka á honum á eðlilegum og ávallt löglegum hraða og án mikillar hraðaaukningar er hagkvæmara að velja hann með minni vél, því þá eyðar hann litlu.

Eftirtektarvert lítið hljóð heyrist frá þessari vél og sperra þarf upp eyrun til að heyra hvort bíllinn er í gangi eður ei. Reynsluakstursbíllinn var sjálfskiptur með S-tronic 8 gíra skiptingu eins og í mörgum öðrum góðum Audi-bílum og virkar alltaf mjög vel, er hröð og þýð.

Stíf fjöðrun og fínir aksturseiginleikar

Akstur Q5 er ánægjulegur og í honum fær ökumaður meira á tilfinninguna að hann sé að aka fólksbíl en jepplingi og það vísar á gott. Fjöðrunin er stíf og góð og yfirbyggingin hreyfist lítið þó lagt sé talsvert á hann. Eitthvað vantar þó á að ökumaður hafi nægilega mikla tilfinningu fyrir veginum og á það við margan jepplinginn, hvað þá jeppann.

Mörgum finnst fjöðrun Q5 of stíf og hörð og eðlilega eru skiptar skoðanir um hversu mjúkir bílar eiga að vera og sumir kjósa helst lungamjúka fjöðrun gömlu amerísku sleðanna. Aðrir kjósa frekar harða fjöðrun sem eykur á akstursgetuna og hörð fjöðrun Q5-bílsins höfðaði vel til reynsluökumanns. Audi-bílar hafa svikið fáan kaupandann síðustu ár og þessi er engin undantekning frá því en Audi-bílar eiga líka það sameiginlegt að vera dýrir. Þeir sem hafa efni á því að eignast Audi eiga að láta það eftir sér og sætta sig við að líka er dýrt að bæta við aukahlutum í þá. Audi Q5 er mjög eigulegur bíll og góður kostur í þessum flokki bíla. Þeir sem hafa kost á því að setja aðeins meiri peningar í bílakaup ættu að íhuga að bæta við þremur milljónum kr. og fá sér Audi Allroad, sem er algerlega geggjaður bíll.

finnurorri@gmail.com