Friðrik Ingi Rúnarsson
Friðrik Ingi Rúnarsson
Domino's-deild karla og Domino's-deild kvenna eru nýju heitin á úrvalsdeildunum í körfubolta en KKÍ og Domino's Pizza á Íslandi gengu í gær frá þriggja ára samstarfssamningi í húsakynnum ÍSÍ í Laugardalnum.

Domino's-deild karla og Domino's-deild kvenna eru nýju heitin á úrvalsdeildunum í körfubolta en KKÍ og Domino's Pizza á Íslandi gengu í gær frá þriggja ára samstarfssamningi í húsakynnum ÍSÍ í Laugardalnum. „Þetta er stærsti samningur sem við höfum gert við eitt stakt fyrirtæki,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, við undirritunina í gær.

Mikil gleði er innan herbúða KKÍ að fá þennan nýja styrktaraðila en stefnt er á að kynna til leiks ýmsar nýjungar í deildunum þegar nær dregur móti en þetta kom fram á fundinum í gær.

„Ég vona að við séum ekki að lyfta væntingastuðlinum of hátt,“ grínaðist Birgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri Domino's, og benti á stafla af pitsum sem í boði voru fyrir gesti.

„Við erum ánægð með að styðja körfuboltann,“ sagði hann. „Við sjáum á tölum að körfuboltinn er að vaxa. Það er hugmyndaauðgi í kringum körfuboltann og þannig mönnum viljum við vinna með. Þetta er stærsti samningur sem við höfum gert en við viljum leggja okkar af mörkum til að hefja körfuboltann enn frekar til vegs og virðingar,“ sagði Birgir Örn.

Úrvalsdeildir karla og kvenna hafa undanfarin sjö ár borið nafn Iceland Express en mikil lukka hefur verið með það samstarf. Friðrik Ingi Rúnarsson, framkvæmdastjóri KKÍ, sagði sambandið og Iceland Express hafa skilið í mesta bróðerni. tomas@mbl.is