John og Helene Taylor við metbílinn eftir að nýja metið var í höfn en þá höfðu þau ekið langar leiðir í Bandaríkjunum.
John og Helene Taylor við metbílinn eftir að nýja metið var í höfn en þá höfðu þau ekið langar leiðir í Bandaríkjunum.
Bandarísk hjón með áhuga á sparakstri afrekuðu það á dögunum að aka venjulegum fólksbíl 2.616 kílómetra á einni tankfylli eldsneytis. Er það heimsmet.

Bandarísk hjón með áhuga á sparakstri afrekuðu það á dögunum að aka venjulegum fólksbíl 2.616 kílómetra á einni tankfylli eldsneytis. Er það heimsmet. Fararskjótinn var 2012 árgerðin af Volkswagen Passat SE TDI með 2ja lítra og fjögurra strokka dísilvél og sex hraða beinskiptingu.

Afrekið unnu þau John og Helene Taylor sem lögðu upp í sparaksturinn í Houston í Texasríki 3. maí og luku honum í bænum Sterling í Virginíuríki á þriðja degi, 5. maí. Skiptust þau á um að aka og óku einungis í dagsbirtu, eða að hámarki 14 stundir á dag. Leiðin lá um níu ríki eða allt þar til tankurinn tæmdist í Sterling.

Með fullt af farangri

Þegar menn hafa freistað spar-akstursmeta hafa viðkomandi rifið sem mest innan úr bílnum til að gera hann léttari. Það létu Taylorhjónin með öllu ógert. Til að líkja sem mest eftir venjulegum akstursaðstæðum og bílnotkun tóku þau með sér 55 kíló af farangri sem settur var bæði í skottið og aftursæti Passatsins.

Fyrra heimsmetið bættu hjónin um 160 kílómetra en það var 2.456 kílómetrar, sett í Evrópu einnig á Passat en sá var með 1,6 lítra BlueMotion dísilvél.

Uppgefin drægni 2012 árgerðarinnar af Volkswagen Passat SE TDI er 100 kílómetrar á 5,5 lítrum olíu. Í metakstri sínum dugðu hins vegar 2,8 lítrar Taylorhjónunum að meðaltali á hverjum 100 km.

Eldsneytispar heimsins

John og Helen Taylor eru þekkt meðal bíláhugamanna sem heimsins eldsneytissparneytnasta par. Til þessa hafa þau sett á fimmta tug heimsmeta í sparakstri. Í nýjasta metinu notuðu þau mjög súlfúrsnauða dísilolíu en ekkert hafði verið átt við bílinn, hann var eins og hann kom „úr kassanum“.

Áður en lagt var upp í metaksturinn vottaði opinber löggildingarstofa hraða- og kílómetramæli Passatsins, lögregla las af mælunum, fylgdist með áfyllingu eldsneytis og innsiglaði síðan tankinn. Er bíllinn nam síðan staðar í Sterling vegna eldsneytisskorts var lögregla kölluð til og skráði hún niður ekna vegalengd og rauf innsiglið af eldsneytistankinum svo Taylorhjónin gætu fyllt á aftur og ekið heim, einu metinu ríkari.

Taka hringinn réttsælis

Fulltrúar bílaumboðsins Heklu eru þessa á dagana á ferð um landið og sýna bíla í flestum byggðarlögum. Fyrsta sýningin var sl. mánudag og þaðan verður hringurinn um landið svo þræddur réttsælis. Í dag, fimmtudag, eru sýningar í Ólafsfirði, á Dalvík, Húsavík, Kópaskeri og Raufarhöfn og morgun verður Þórshöfn fyrsti viðkomustaðurinn. Ferðinni lýkur á Hellu á sunnudagskvöld.

Í þessari Íslandsferð sýna Heklumenn ýmsa þá áhugaverðu bíla sem þeir hafa umboðið fyrir. Má þar nefna meðal annars Volkswagen Tiguan jepplinginn, Skoda Octavia, mest selda bíl síðasta árs, og nýjan Mitsubishi Pajero. Eru þá ónefndir fleiri sem fólki býðst kostur á að skoða og reynsluaka.