[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dægradvölin Skólinn er í fríi og því fagna blessuð börnin, á hvaða stigi skólans sem þau eru. En bóklesturinn á samt ekki að gjalda þess að skólabyggingar séu lokaðar því lestur er líkamsrækt hugans.
Dægradvölin Skólinn er í fríi og því fagna blessuð börnin, á hvaða stigi skólans sem þau eru. En bóklesturinn á samt ekki að gjalda þess að skólabyggingar séu lokaðar því lestur er líkamsrækt hugans. Heimsókn á bókasafn er einhver sniðugasta tímaráðstöfun sem möguleg er í sumar, og þau okkar sem eiga börn á skólaaldri ættu að hafa í huga að lestur í sumarfríinu gerir þau mun betur í stakk búin að takast á við skólann næsta haust. Það er margrannsakað og staðfest.

Maturinn Það er vinsælt að kaupa sér lófastórar hafrakökur þegar fólk er á ferðinni og langar í maul sem er í senn hollt og bragðgott. Sá galli er á gjöf Njarðar að stykkið kostar jafnan hátt í 500 krónur, en góðu fréttirnar eru þær að einfalt er að baka þær heima. Finna má mýmargar uppskriftir á netinu, og þurrkuð trönuber lyfta þeim á annað plan.

Hljómplatan Sumarsólstöðutónleikar með Ólöfu Arnalds í liðinni viku minntu viðstadda rækilega á hversu magnaður tónlistarmaður Skúli Sverrisson er. Það er leitun að öðrum eins galdramanni á bassann og vert að minna á plötur hans, Seríu (2006) og Seríu 2 (2010) sem eru báðar með því besta sem kom út hérlendis þau árin. Ef til vill ekki allra, en það býr enginn annar til akkúrat svona tónlist.