Magnús Gylfason
Magnús Gylfason
Stórleikur átta liða úrslita Borgunarbikars karla í fótbolta verður í Vestmannaeyjum þar sem heimamenn í ÍBV taka á móti KR.

Stórleikur átta liða úrslita Borgunarbikars karla í fótbolta verður í Vestmannaeyjum þar sem heimamenn í ÍBV taka á móti KR.

Það vantar ekkert upp á það að KR ætli Krýsuvíkurleiðina í bikarúrslitin eins og í fyrra en liðið er nú þegar búið að mæta ÍA í 32 liða úrslitum og svo slógu Vesturbæingarnir Breiðablik út úr 16 liða úrslitunum á mánudagskvöldið.

Leikurinn fer fram á sama tíma og goslokahátíðin í Eyjum og er því búist við mikilli mætingu. Magnús Gylfason, þjálfari ÍBV, sagði við Morgunblaðið á drættinum að hann vonaðist til að nýja stúkan væri orðin klár fyrir leikinn.

Fyrstu deildar liðin Þróttur og Víkingur úr Reykjavík fengu nánast eins góða drætti og mögulegt var, fyrir utan að mæta hvort öðru að sjálfsögðu. Bæði lið fengu heimaleiki gegn liðunum í fallbaráttunni í Pepsi-deildinni. Þróttarar taka á móti Selfossi og Víkingur fær Grindavík í heimsókn. Það er ekki útséð með það að lið úr 1. deild komist í undanúrslitin.

Hinn efstu deildar slagurinn verður í Garðabænum þar sem Stjarnan tekur á móti Fram. Bæði lið skröltu inn í átta liða úrslitin. Stjarnan þurfti framlengingu til að leggja Reyni frá Sandgerði á meðan Framarar lentu í miklu basli með Aftureldingu, sem spilar í 2. deild eins og Reynir.

Þrír leikir fara fram 8. júlí en Stjarnan og Fram mætast 9. júlí. Undanúrslitaleikirnir fara fram 1. og 2. ágúst. tomas@mbl.is