Beðið eftir mat Efnalítið fólk bíður eftir matargjöfum í Oswego í New York-ríki fyrr í þessum mánuði. Allt að 160 fjölskyldur fengu þá mat.
Beðið eftir mat Efnalítið fólk bíður eftir matargjöfum í Oswego í New York-ríki fyrr í þessum mánuði. Allt að 160 fjölskyldur fengu þá mat. — AFP
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Fyrirhugaður niðurskurður Bandaríkjastjórnar á ríkisútgjöldum um 607 milljarða dala á næsta fjárlagaári, eða um sem svarar 4% af þjóðarframleiðslu, mun kosta ríkissjóðinn 47 milljarða dala.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fyrirhugaður niðurskurður Bandaríkjastjórnar á ríkisútgjöldum um 607 milljarða dala á næsta fjárlagaári, eða um sem svarar 4% af þjóðarframleiðslu, mun kosta ríkissjóðinn 47 milljarða dala.

Kemur það til af því að skattstofnar veikjast vegna niðurskurðarins auk þess sem hann mun að óbreyttu bitna á atvinnustiginu, að mati fjárlagadeildar Bandaríkjaþings, CBO, sem telur að aðhaldið muni því skila 560 milljarða dala sparnaði. Skrifstofan tekur fram að fjárlagaárið hefjist í október næstkomandi og að niðurskurðurinn sé meiri, eða um 5,1% af þjóðarframleiðslu, á almanaksárinu 2012.

Önnur niðursveifla í vændum?

Tímasetningin á þessari greiningu er ekki heppileg fyrir Barack Obama Bandaríkjaforseta en mikið atvinnuleysi hefur sem kunnugt er verið honum erfiður ljár í þúfu.

Meðal þeirra sem hafa kvatt sér hljóðs um erfiða stöðu bandaríska þjóðarbúsins eru Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði.

Stiglitz er svartsýnn og telur að önnur niðursveifla sé í vændum í Bandaríkjunum ef skattar verða hækkaðir og útgjöld skorin niður til að stoppa upp í fjárlagagatið. Gengur hann þar út frá því að óróinn í Evrópu haldi áfram fram á næsta ár. Telur Stiglitz einsýnt að slíkar aðhaldsaðgerðir muni hægja á hagvexti í Bandaríkjunum.

Kastljósið beinist nú enn einu sinni að skuldavanda alríkisins, sambandsríkja, borga og bæja í Bandaríkjunum í tilefni þess að borgin Stockton í Kaliforníu óskaði eftir því að fara í greiðsluþrot.

Eyddu um efni fram

Á vef Los Angeles Times segir að borgaryfirvöld í Stockton hafi reynt að breyta ásýnd borgarinnar og gera hana aðlaðandi fyrir tekjuhærri hópa en þar búa. Bæði borgin og fólkið sem þar býr hafi byggt fyrir lán sem þau áttu ekki fyrir. Íbúar borgarinnar eru um 300.000.
Skreppur saman
» Fjárlagadeild Bandaríkjaþings spáir því að bandaríska hagkerfið dragist saman um 1,3% á fyrri helmingi næsta árs en vaxi síðan um 2,3% á síðari helmingi ársins.
» Hagvöxtur verði því 0,5%.
» Á vef skrifstofunnar segir að slíkur samdráttur á fyrri árshelmingi sé líklega kreppa.