[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Verk er að vinna hjá sjómönnum og landverkafólki víða um land á næstu vikum og mánuðum. Framundan er að veiða og vinna um 140 þúsund tonn af makríl og um 120 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Verk er að vinna hjá sjómönnum og landverkafólki víða um land á næstu vikum og mánuðum. Framundan er að veiða og vinna um 140 þúsund tonn af makríl og um 120 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld. Fjöldi fólks fær vinnu í landi við að bjarga verðmætum, mest skólafólk, sem tekur vinnunni fegins hendi og færir líf í byggðirnar.

Það var hugur í mönnum sem rætt var við í nokkrum af stærstu löndunarhöfnunum. Víða er verið að fjárfesta í nýjum búnaði og tvö skip hafa bæst í uppsjávarflotann frá síðustu vertíð, Heimaey VE 1 og nýr Börkur NK.

Hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað er vertíðin óðum að komast í fullan gang. Börkur, Beitir og Bjarni Ólafsson frá Akranesi hafa landað reglulega undanfarið og hefur stöðug vinnsla verið í landi. Unnið er á tólf tíma vöktum í frystingunni. Skipin hafa komið inn með 5-600 tonn af blönduðum afla á sólarhring og hefur aflinn einkum fengist austur af Hornafirði síðustu daga. Reiknað er með að makrílvertíðin standi fram í september, en veiðar á norsk íslensku síldinni mánuði lengur.

Gaman að standa í þessu

„Það er nóg að gera á öllum vígstöðvum og gaman að standa í þessu,“ segir Jón Már Jónsson, yfirmaður landvinnslu hjá Síldarvinnslunni. „Ég held að það þurfi enginn að vera atvinnulaus í Neskaupstað. Við réðum yfir 50 manns til viðbótar, annars vegar í frystinguna og hins vegar erum við með yngra fólk í umhverfishópi við málningarvinnu og tiltekt.“

Talsverðar framkvæmdir standa yfir í Neskaupstað á vegum Síldarvinnslunnar. Rafvæða á fiskimjölsverksmiðjuna eins og greint hefur verið frá í blaðinu, en einnig er verið að setja upp frystiskáp til að frysta stærsta makrílinn. Kostar sú framkvæmd um 100 milljónir króna að sögn Jóns Más og er þetta þriðji skápurinn þessarar gerðar sem settur er upp á þremur árum. 30-35 tonn eru fryst í hverjum skáp, alls um 100 tonn.

Með sjö skip á makríl

„Það er jákvætt að geta boðið þeim vinnu sem geta og vilja vinna og það virðist vera nóg framundan,“ segir Aðalsteinn Ingólfsson, framkvæmdastjóri Skinneyjar-Þinganess á Höfn í Hornafirði. Um 60 unglingar fá vinnu hjá fyrirtækinu í sumar og verða flest þeirra við humarvinnsluna.

Skip fyrirtækisins eru að byrja síldar- og makrílvertíð, en nánast allur afli er frystur í landi. Aðalsteinn segir að þeir sækist eftir síld frekar en makríl í upphafi vertíðar þar sem makríllinn sé enn horaður og talsverð áta hafi verið í honum. Í raun sé sóknin í þessar tvær tegundir sama vertíðin, því síld og makríll veiðist oft saman.

Mikil umsvif tengjast veiðunum og auk uppsjávarskipanna Jónu Eðalds og Ásgríms Halldórssonar, sem eru með aflareynslu í makríl, fara fimm önnur skip Skinneyjar-Þinganess á makrílveiðar í sumar. Þórir, Þinganes, Hvanney, Steinunn og Skinney mega veiða 113 tonn hvert eða tæplega 600 tonn. Bætast þær heimildir við þau tæplega sex þúsund tonn sem Jóna og Ásgrímur mega koma með að landi. Að auki eru þau með um 10.600 tonna heimildir í norsk íslenskri síld.

Talsverðar breytingar hafa orðið á útgerð og vinnslu á vegum Ísfélagsins í Vestmannaeyjum frá síðustu vertíð. Nýtt og glæsilegt skip, Heimaey VE 1, hefur bæst í flotann og unnið er að uppsetningu á lausfrysti í frystihúsi fyrirtækisins á Þórshöfn.

Frystigeta samræmd veiðigetu

„Við verðum að hafa frystigetu í samræmi við veiðigetu,“ segir Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins. „Miðað er við að þessi viðbót verði komin í notkun í byrjun ágúst þegar þunginn í veiðum á makríl og síld verður kominn norður á bóginn. Afkastagetan á Þórshöfn verður um 200 tonn á sólarhring eftir þessa breytingu og eykst um þriðjung.“

Skip fyrirtækisins eru að byrja makrílveiðar, en Heimaey landaði þó á mánudag eftir sinn fyrsta túr. Stefán segir að um prufutúr hafi verið að ræða til að stilla tæki og tól. Ekkert hafi komið á óvart, en það taki sjálfsagt nokkra túra að fínstilla búnaðinn.

Viska með námskeið fyrir nýliða í Eyjum

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum bætir rösklega við sig starfsfólki í sumar eða um 150 manns og verða því hátt í 300 manns við landvinnslu fyrirtækisins á þessum tíma. Sumarfólkið vinnur ýmis störf hjá Ísfélaginu; í vaktavinnu í makrílnum, í humrinum eða í bolfiski eftir því sem fastafólkið þar fer í sumarleyfi.

Að sögn Sindra Viðarssonar hjá Vinnslustöðinni verður verkefnum sumarfólksins mikið skipt upp eftir aldri og reynslu. Þá þurftu allir sem koma nýir inn í fyrirtækið að fara áður á 90 klukkustunda nýliðanámskeið þar sem farið er ítarlega yfir vinnuferla í máli og myndum. Það var skipulagt af Visku, fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja.

Ísfélagið Í Vestmannaeyjum hefur bætt við um 20 manns fyrir sumarið. Það starfsfólk sem kom nýtt inn fór einnig á námskeið í vor hjá Visku. Tilgangur skólans er að bjóða upp á hagnýtt nám til að auðvelda ungum starfsmönnum að átta sig á eðli starfs við fiskvinnslu og greina hvað má og hvað ekki má, forðast hættur og skynja og skilja eðli starfsins sem og að átta sig á verðmætum hráefnisins.

Náminu er svo fylgt eftir með verklegri kennslu í frystihúsinu. Þeir starfsmenn sem verða fastráðnir eiga kost á framhaldsnámskeiðum á vegum samtaka fiskvinnslustöðva, samkvæmt upplýsingum Björns Brimars Hákonarsonar, framleiðslustjóra.

Í ætisleit
» Makrílveiðar sköpuðu yfir þúsund ársverk á sjó og landi í fyrra, en skipuleg makrílveiði hófst fyrir um sex árum.
» Í sumargöngum leitar makríllinn sífellt norðar eftir æti og kemur nú í miklu magni inn í íslenska lögsögu.
» Talið er að um 1,1 milljón tonna af makríl hafi komið inn í lögsöguna tvö síðustu ár.
» Makríll hefur um aldir verið þekktur við Ísland og var hér í talsverðu magni á hlýskeiði um miðbik 20. aldar.