Guðmunda Halldóra Gestsdóttir fæddist á Kálfhóli á Skeiðum 24. apríl 1918. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 19. júní 2012. Foreldrar hennar voru hjónin Valgerður Auðunsdóttir, f. 1885, d. 1945 og Gestur Ólafsson, f. 1884, d. 1972, bændur á Kálfhóli. Systkini Guðmundu voru: Halldóra, Auðunn, Kristín, Þórður og Björgvin, þau eru öll látin.

9. nóvember 1940 giftist Guðmunda Sigurði Guðlaugsyni, f. 26. apríl 1914, d. 1984. Börn þeirra eru: 1) Valgerður, f. 29. júlí 1940, d. 1998, eftirlifandi maki Kristján P. Jóhannsson, f. 18. maí 1936. Börn þeirra: a) Jóhann, f. 9. ágúst 1958 og b) Guðmunda Birna, f. 10. nóvember 1959, maki Indriði Arnórsson, f. 21. ágúst 1951. Börn þeirra eru: María, f. 9. febrúar 1982, dóttir hennar Athena Lindeberg, f. 4. nóvember 2010, Páll, f. 25. febrúar 1984, maki Signý Pála Sigmarsdóttir, f. 12. júlí 1985, dóttir þeirra Júlía Rós, f. 7. nóvember 2011, Jón Pétur, f. 15. júní 1987, unnusta Lilja Ákadóttir, f. 1. september 1988. 2) Kristín Erla, f. 19. mars 1943, maki Jóhann Helgason, f. 1. maí 1942. Börn þeirra: a) Arnar, f. 5 janúar 1965, maki Bergdís Sigurðardóttir, f. 14. júlí 1968, börn þeirra: Sigurður Bessi, f. 2. janúar 1995, Arnar Tumi, f. 28. apríl 1999 og Kristín, f. 25. september 2002, b) Helgi Sigurður, f. 23. júní 1966, börn hans: Alexandra, f. 25. desember 1990 og Andrés, f. 6. október 2005, c) Eysteinn Björn, f. 10. apríl 1971, börn hans: Edda Kristín, f. 5. apríl 1990, Linda María, f. 31. maí 1993, Sara Dögg, f. 21. mars 2003 og Halla Bára, f. 10. janúar 2007. 3) Þuríður Bára, f. 14. maí 1950, d. 2006. 4. Eygló, f. 9. apríl 1955, dáin sama ár. 5. Rafn, f. 20. júlí 1958. Börn hans: a) Edda Hrund, f. 28. apríl 1981, dóttir hennar: Svanhildur Lea, f. 21. nóvember 2005, b) Freyr, f. 12. mars 1993.

Guðmunda ólst upp á Kálfhóli á Skeiðunum. Guðmunda og Sigurður hófu sinn búskap á Eyrarbakka en fluttu árið 1962 í Kópavoginn, fyrst í Austurgerði 6 en síðustu árin bjó Guðmunda í Fannborg 8.

Guðmunda verður jarðsungin frá Kópavogskirkju í dag, 28. júní 2012, og hefst athöfnin kl. 13.

Elskuleg amma mín er fallin frá, 94 ára. Mig langar að þakka þér samfylgdina, sem var mjög góð. Þú hafðir ætíð tíma fyrir hvern og einn og kannski fátt betra og dýrmætara að minnast.

Ljúfar voru stundir

er áttum við saman.

Þakka ber Drottni

allt það gaman.

Skiljast nú leiðir

og farin ert þú.

Við hittast munum aftur,

það er mín trú.

Hvíl þú í friði

í ljósinu bjarta.

Ég kveð þig að sinni

af öllu mínu hjarta.

(Maren Jakobsdóttir)

Hafðu hjartans þakkir fyrir allt.

Guðmunda Birna.

Í dag kveðjum við Guðmundu H. Gestsdóttur sem lést þegar dagur var lengstur, á 95. aldursári. Guðmunda og faðir okkar, Steinn Stefánsson, voru komin vel á efri ár þegar leiðir þeirra lágu saman. Þau áttu það sameiginlegt að hafa fyrir löngu misst maka sína og búið einsömul um árabil. Það var því báðum til mikillar gleði að kynnast og komast að því að þeim kæmi jafn vel saman og raun bar vitni.

Þau voru reyndar ekki mjög mörg árin sem Munda, eins og hún var oftast kölluð, og pabbi okkar fengu saman. Kannski sex eða sjö. En það fór ekki framhjá neinu okkar að fyrir þau voru þetta góð ár. Þau voru samrýnd, fóru allt saman, ýmist gangandi eða á gamla Fíatinum og sátu svo við stofuborðið eða í eldhúsi og spiluðu og spjölluðu. Stunduðu félagslíf, fóru á böll og spilakvöld hjá félagi aldraðra þar sem pabbi okkar var náttúrulega óþreytandi við píanó að láta fólkið syngja. Munda hafði gaman af þessu þótt hún syngi lítið sjálf. En hún var lúmskt hreykin af sínum manni þar sem hún sat hlédræg og fylgdist brosandi með.

Munda átti heila hæð í Kópavogi þar sem þau dvöldu á stundum. En faðir okkar var alltaf ánægðastur þegar þau komu aftur á Laugarnesveginn í litlu íbúðina hans sem við systkinin kölluðum í gamni hjáleiguna. Höfuðbólið var í Kópavoginum. En hann kunni best við sig innan um sitt dót, bækurnar sínar, skrifuð og óskrifuð blöð. Og Munda fylgdi honum með bros á vör. Hún virtist ekki kunna illa við sig í hjáleigunni enda fædd í sveit og hafði lifað tímana tvenna.

Máltíðir voru á kórréttum tíma, Munda var natin við eldamennsku og öll heimilisstörf þar sem hún var á heimavelli og reiddi fram staðgóðan mat þótt sjálf væri hún alltaf ósköp matgrönn. Hún kinkaði brosandi kolli aðspurð um það hvort hún væri að passa línurnar. Hélt að hún þyrfti nú ekki að vera að troða í sig mat komin á þennan aldur. Enda var hún alla tíð vel á sig komin, lagleg og ákaflega snyrtileg kona. Hún hafði gaman af því að klæða sig upp fallega í litrík föt. Stundum mátti sjá þau skötuhjúin á gangi um Laugarnesið á góðviðrisdögum. Þar fóru pen og virðuleg eldri hjón. Nema hvað þau voru ekki hjón í þeim skilningi að þau létu pússa sig saman. Kannski fannst þeim það óþarfi, kannski vildu þau ekki flækja málin. En þau voru alltaf saman þessi ár og líka daginn sem faðir okkar lést. Þá voru þau á göngu í Lækjargötu og hún sat hjá honum og hélt í hönd hans meðan beðið var eftir sjúkrabílnum.

Eftir lát hans varð Munda aftur ein. Með tímanum seldi hún hæðina í Austurgerðinu og flutti í þjónustuíbúð í Kópavogi. Þar bjó hún til dauðadags. Við héldum alltaf góðu sambandi þó að heldur dofnaði það eftir því sem fjarlægðin óx við tímabil höfuðbólsins og hjáleigunnar. Að leiðarlokum langar okkur að þakka Guðmundu fyrir samfylgdina og það hversu vel hún reyndist honum pabba okkar árin sem þau áttu saman. Börnum hennar og öðrum afkomendum sendum við samúðarkveðjur.

Ingólfur, Iðunn, Kristín og Stefán.