[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skotfimi Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Þetta var miklu meira sjokk en ég hefði búist við. Ég vissi að ég ætti séns en ég vissi líka að hann væri ekki mikill.

Skotfimi

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Þetta var miklu meira sjokk en ég hefði búist við. Ég vissi að ég ætti séns en ég vissi líka að hann væri ekki mikill. Ég hélt líka að þetta hefði átt að vera orðið ljóst fyrir tveimur vikum og gekk því út frá því að ég hefði ekki komist inn. Þetta var alveg frábært,“ sagði Ásgeir Sigurgeirsson, skotíþróttamaður úr SR, sem verður fyrsti Íslendingurinn til að keppa í skammbyssukeppni á Ólympíuleikum.

Ásgeir mun keppa í London eftir mánuð í tveimur greinum, með frjálsri skammbyssu og loftskammbyssu. Hann var aðeins einu stigi frá því að komast inn á leikana í loftskammbyssukeppni í febrúar, hlaut 575 stig, en eftir það mót leit út fyrir að möguleikinn væri horfinn. Ásgeiri var hins vegar úthlutað sérstöku aukaplássi í frjálsri skammbyssu vegna góðs árangurs á alþjóðlegum mótum, og fékk að auki sæti í loftskammbyssukeppni vegna þess að fyrrnefndur árangur var yfir ákveðnu lágmarki.

„Ég hafði hugsað mér að æfa fram í ágúst og taka mér svo stutta hvíld. Sem betur fer var ég ekki hættur að æfa og núna verður maður ekki alveg eins „líbó“ í æfingunum,“ sagði Ásgeir sem var farinn að gera önnur ferðaplön en að halda til London.

„Ég var búinn að ráðgera að heimsækja bróður minn til New York en það er ljóst að maður bíður með það núna,“ sagði Ásgeir léttur. Hann er í 42. sæti á heimslista í frjálsri skammbyssu og í 51. sæti í loftskammbyssu.

„Ég tók þá afstöðu strax að vera ekkert að væla yfir því að komast ekki inn í febrúar, þegar maður hélt að þessi draumur væri úti. Í staðinn setti ég stefnuna á heimsbikarmótin og fór og keppti á þeim. Ég hef líka alltaf hugsað lengra en á þessa leika í London. Það var alveg ljóst að það yrði mjög erfitt að komast þangað. Reynsluboltarnir í þessari íþrótt eru á aldrinum 35-50 ára þannig að ég á mikið eftir í að ná þeirri reynslu. Þetta er gígantísk reynsla sem ég fæ á Ólympíuleikunum sem er afar dýrmætt,“ sagði Ásgeir.

Ásgeir er þriðji íslenski skotíþróttamaðurinn sem kemst á Ólympíuleika. Carl J. Eiríksson reið á vaðið í Barcelona 1992 og keppti með riffli. Alfreð Karl Alfreðsson keppti svo í Sydney árið 2000 með haglabyssu.

Íslensku Ólympíufararnir sem halda til keppni í London eru nú orðnir 24 talsins, þar af 14 handknattleiksmenn.