Fréttaskýring Ingvar P. Guðbjörnsson ipg@mbl.is Níu af hverjum tíu telja ríkisstjórn Íslands leyna almenning upplýsingum er varða almannahagsmuni. Þetta kemur í ljós í viðhorfskönnun sem gerð var af Félagsvísindastofnun HÍ dagana 15. mars til 16....

Fréttaskýring

Ingvar P. Guðbjörnsson

ipg@mbl.is

Níu af hverjum tíu telja ríkisstjórn Íslands leyna almenning upplýsingum er varða almannahagsmuni.

Þetta kemur í ljós í viðhorfskönnun sem gerð var af Félagsvísindastofnun HÍ dagana 15. mars til 16. apríl.. Spurningar voru lagðar fyrir 1.898 manns og svöruðu 1.270, eða 66,91%.

Niðurstöðurnar voru kynntar á fyrirlestri í Háskóla Íslands í gær af dr. Jóhönnu Gunnlaugsdóttur, prófessor í upplýsinga- og skjalastjórn við Félagsvísindasvið HÍ.

Traust á hið opinbera sáralítið

Spurt var hvort fólk teldi að ríkisstjórn, ráðuneyti, sveitarfélög og stofnanir þeirra, þjónustustofnanir ríkisins og eftirlitsstofnanir ríkisins leyndu mikilvægum upplýsingum sem ættu erindi við almenning og vörðuðu almannahagsmuni. Annars vegar var spurt hvort fólk teldi þetta eiga við um umhverfis-, velferðar-, heilbrigðis- og menntamál. Hins vegar var spurt hvort fólk teldi slíkt eiga við varðandi opinber útgjöld hins opinbera.

Svörin varðandi seinni spurninguna hvað ríkisstjórnina varðar voru að 43% telja hana oft leyna upplýsingum er varða opinber útgjöld en 38% að upplýsingum sé stundum leynt.

Niðurstöðurnar varðandi ráðuneytin voru á þá leið að 82% telja ráðuneytin oft eða stundum leyna upplýsingum sem eiga erindi við almenning varðandi málaflokka sem tengjast almannahag, en varðandi spurninguna um opinber útgjöld telja 88% ráðuneytin oft eða stundum leyna upplýsingum.

Viðhorfið til sveitarstjórna og stofnana þeirra getur vart talist viðunandi. 78% svarenda telja að sveitarfélögin leyni upplýsingum er varði almannahagsmuni um umhverfis-, velferðar-, heilbrigðis- og menntamál. En 75% telja slíkt gerast varðandi opinbera útgjaldaliði. Einungis tveir af hundraði telja sveitarfélögin ekki leyna upplýsingum um almanna málefni.

Þjónustustofnanir ríkisins koma einnig illa út úr könnuninni. 73% svarenda eru á þeirri skoðun að þær leyni oft eða stundum upplýsingum varðandi opinber útgjöld og 76% svara spurningunni um málaflokka sem varða almannahag þannig.

Eftirlitsstofnanir ríkisins eru heldur ekki í góðri stöðu þegar trúverðugleiki almennings á þeim er skoðaður. 80% svara fyrri spurningunni þannig að þeir telji eftirlitsstofnanirnar oft eða stundum leyna upplýsingum og 71% svara þeirri síðari, varðandi opinber útgjöld, þannig að þeir telji stofnanirnar vitandi vits leyna upplýsingum sem varða hag almennings.

Stjórnvöld fara ekki að lögum

Jóhanna tiltók dæmi þar sem embættis- og stjórnmálamenn hafa ekki fylgt lögum um skjalfestingu og upplýsingagjöf. Hún nefndi fund utanríkisráðherra haustið 2009 með þremur þjóðhöfðingjum og með 12 til 14 utanríkisráðherrum ESB-ríkja auk fundar með þáverandi framkvæmdastjóra AGS þar sem rætt var um Icesave-málið. Af þeim fundum hafi engar fundargerðir verið færðar og svör ráðherrans verið á þá leið að fundirnir hefðu farið fram í trúnaði.

Auk þess nefndi hún tölvupóst fjármálaráðherra sem hann taldi vera einkapóst, en efni hans varðaði greiðslur af opinberu fé, þrjátíu milljónum króna, til meðferðarheimilisins Árbótar í Þingeyjasýslu árið 2010 við lokun heimilisins.

Hugarfarsbreytingu skortir

„Atriði sem þessi eiga ekki að líðast og nauðsynlegt er að háttsettir embættismenn og æðstu stjórnendur geri sér grein fyrir því að endanleg ábyrgð á meðhöndlun upplýsinga og upplýsingagjöf liggur hjá þeim,“ sagði Jóhanna á fyrirlestrinum og bætti við: „Þeir standa sig ekki alltaf sem skyldi og víða ríkir agaleysi hvað formlegar vinnureglur um upplýsingar varðar. Þessir einstaklingar ættu að gera sér grein fyrir þýðingu þessa stjórnunarþáttar í rekstrinum. Hjá þeim mörgum þarf að verða alger hugarfarsbreyting.“

Á fundinum sköpuðust líflegar umræður og meðal þeirra sem tóku þátt úr sal voru fjölmiðlamenn og embættismenn. Var því meðal annars haldið fram að stofnanir hins opinbera matreiddu upplýsingar til fjölmiðla og reyndu þannig að stjórna umræðunni.

Viðbrögð sveitarfélaga

Áskorun að upplýsa

„Það væri áhugavert að sjá hvað fólk á við. Ég held að þetta sé almennt vantraust sem yfirfærist á sveitarfélögin,“ sagði Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, um þessar niðurstöður og bætti við: „Mér hefur fundist erfitt að koma upplýsingum til fólks. Það hefur verið áskorun sveitarfélaga að koma meiri og betri upplýsingum til almennings.“

Halldór segir að stjórnsýsla sveitarfélaga sé almennt mun opnari og lýðræðislegri en stjórnsýsla ríkisvaldsins og bendir í því samhengi á skipulagsmálin, en þar hafi almenningur lögvarinn aðgang að skipulagsferli þeirra mála sem eru í gangi hverju sinni og geti haft töluverð áhrif á ferlið alveg fram að lokaafgreiðslu mála.