Eftir Tryggva Gíslason: "Þóra Arnórsdóttir kemur sem ferskur andblær inn í svækju átakastjórnmála, óbundin, heiðarleg og óháð..."

Þrennt er það sem forseti Íslands á að sinna. Í fyrsta lagi á forseti að vera sameiningartákn – ekki stjórnmálaafl – og koma fram fyrir hönd allrar þjóðarinnar – ekki hagsmunahópa sem mest eru áberandi hverju sinni.

Í öðru lagi á forseti að koma fram undir merki menningar og mannúðar, hafinn yfir pólitískar væringar – án undirmála, blekkinga og ósanninda, vinna að sátt og samlyndi allra sem í landinu búa, af hvaða þjóðerni og hvaða uppruna sem er, líta til heimsins alls en ekki síður inn á við, gagnrýninn á sjálfan sig og þjóðina og vinna gegn misrétti, hroka og ofmetnaði. Í þriðja lagi á forseti Íslands að sinna stjórnarathöfnun sem stjórnarskráin felur honum beint í anda þingbundins lýðræðis.

Þóra Arnórsdóttir kemur sem ferskur andblær inn í svækju átakastjórnmála, óbundin, heiðarleg og óháð, talar frá hjartanu en vefur sig ekki orðskrúði og gömlum slagorðum áróðursmanna. Hún getur sigrast á spillingu og flokkadráttum sem geisað hafa í landinu undanfarin 16 ár og orðið sameiningartákn, boðberi mannúðar og menningar og tryggt þingbundna lýðræðisstjórn í landinu.

Þóra Arnórsdóttir forseti.

Höfundur er fv. skólameistari Menntaskólans á Akureyri.

Höf.: Tryggva Gíslason