Forsetakosningar eru ekki réttur vettvangur til þess að gera út um valdsvið forseta eða að það geti farið eftir því hver kjörinn er hverju sinni

Sagan hefur sýnt að á tímum umbrota er hætta á að fólk vilji fá menn sem taka af skarið á eigin forsendum til forystu. Oft með ófyrirsjáanlegum og skaðlegum afleiðingum. Það er eðlilegt að í lýðveldi skiptist á skin og skúrir, lýðræðislega kjörnir fulltrúar á löggjafarsamkomunni séu misvel til starfans fallnir og árangur láti bíða eftir sér. En það þýðir ekki að þá sé tilefni til að skekja grunnstoðir samfélagsins.

Ólíkar skoðanir hafa komið fram hjá einstökum frambjóðendum á valdsviði forseta. Það kemur ekki á óvart vegna þess að orðalag stjórnarskrárinnar er á köflum óskýrt. Hins vegar varð smátt og smátt til sameiginlegur skilningur á því, hvernig túlka bæri ákvæði stjórnarskrárinnar, m.a. um valdsvið forseta, sem ekki var dreginn í efa að ráði fram undir lok 20. aldar.

Sameiginlegum skilningi lýsti Ólafur Jóhannesson, prófessor og síðar forsætisráðherra, í riti sínu, Stjórnskipun Íslands. Hann rekur þar á bls. 122 fjölmargar greinar stjórnarskrár, sem skilja má á þann veg, að forseti hafi mikil völd:

„Forseti skipar ráðherra og veitir þeim lausn... Forseti veitir öll meiriháttar embætti... gerir samninga við önnur ríki... Hann getur rofið Alþingi... látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga... Hann tekur þátt í löggjafarstarfi... en hefur þó eigi synjunarvald eins og konungur hafði, heldur aðeins rétt til að skjóta frambúðargildi laga til þjóðaratkvæðis, sbr. 26. gr.“

Síðan segir Ólafur Jóhannesson:

„Sé litið á þessi ákvæði stjórnarskrárinnar ein út af fyrir sig, mætti ætla að vald forseta væri mikið. Þess er þó að gæta að í öðrum stjórnarskrárákvæðum er mjög dregið úr valdi forseta. Þannig segir í 13. gr. stjskr. að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt og samkvæmt 19. gr. stjskr. veitir undirskrift forseta undir löggjafarmál þeim gildi, er ráðherra ritar undir með honum.

Ráðherra ber ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, 14. gr. stjskr., en sjálfur er forseti ábyrgðarlaus, 11. gr. stjskr. Er af þessum ákvæðum ljóst að forseti getur lítt beitt valdi sínu til jákvæðra athafna og ákvarðana nema með atbeina ráðherra. Öðru máli gegnir að vísu um synjanir. Forseta er formlega heimilt að neita að samþykkja eða staðfesta stjórnarathafnir eða lög og þarf eigi til þess atbeina neins ráðherra. Hann verður ekki þvingaður til þessara athafna. Hins vegar gætu slíkar synjanir hans leitt til árekstra við ráðherra og orðið til þess að ráðherra segði af sér. Gæti þá svo farið að forseti yrði í vandræðum með myndun ríkisstjórnar, ef meirihluti þings stæði með ráðherra, sem gera mætti ráð fyrir.

Samkvæmt þessu getur forseti yfirleitt ekki beitt valdi nema með atbeina ráðherra. Fljótt á litið mætti ætla að forseti réði nokkru um stefnu og aðstöðu ráðherra, þar sem hann samkvæmt 15. gr. stjskr. skipar ráðherra og veitir þeim lausn. En hér verður að gæta þingræðisreglunnar, sem áður hefur verið minnst á. Samkvæmt henni ber forseta, þrátt fyrir 15. gr. stjskr. að skipa ráðherra og veita þeim lausn í samráði við Alþingi eða meirihluta þess. Stjórnarathafnir ráðherra, sem tækju við skipun í ráðherraembætti eða sætu í ráðherrastóli andstætt vilja meirihluta þings yrðu að vísu formlega gildar en þeir mundu baka sér ábyrgð. Kæmi þá auðvitað til árekstra á milli þings og forseta og er hugsanlegt að þeir leiddu til frávikningar hans, ef þrír fjórðu þingmanna yrðu honum andstæðir.“

Það er skoðun okkar, sem þessa grein ritum, að með þessum orðum lýsi Ólafur Jóhannesson því, sem telja megi sameiginlegan skilning lögvísindamanna og stjórnmálamanna fram undir lok 20. aldarinnar á ákvæðum stjórnarskrár um valdsvið forseta.

Nú er hverjum íslenskum þegn að sjálfsögðu heimilt að hafa sína skoðun á því hvernig túlka beri að mörgu leyti misvísandi orðalag stjórnarskrár lýðveldisins og það á við um þann sem gegnir forsetaembætti ekkert síður en aðra. Forsetakosningar eru hins vegar ekki réttur vettvangur til þess að gera út um valdsvið forseta og þaðan af síður að það geti farið eftir því hver kjörinn er forseti hverju sinni, hvert valdsvið hans er talið.

Vel má vera að sá sem lengi hefur setið í slíku embætti verði heimaríkur og freistist til að ætla að völd sín séu meiri en þau voru talin. Það eru þá rök fyrir því að setja ákvæði í stjórnarskrá um að takmarka þann tíma, sem sami maður getur setið í þessu embætti. Enda má færa sterk rök að því að það sé beinlínis andstætt grundvallarhugmyndum lýðræðislegra stjórnarhátta að sami maður sitji svo lengi á forsetastóli.

Umræður um valdsvið forseta eiga að fara fram í tengslum við endurskoðun stjórnarskrár og þjóðin hefur síðasta orðið. Það er til þess fallið að valda óvissu og óróa í samfélaginu ef valdsvið forseta er talið óskýrt og sá sem því gegnir hefur tilhneigingu til að láta á það reyna hversu langt hann kemst. Enginn ber meiri ábyrgð í þeim efnum en núverandi forseti, sem gegnt hefur embætti sínu í 16 ár og sækist nú eftir endurkjöri í fjögur ár í viðbót.

Við heitum á landsmenn að kalla ekki fjögur viðbótarár óvissu og óróa í samfélaginu yfir þjóðina.

Áslaug Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Garðabæ, Benedikt Jóhannesson, stærðfræðingur, Hallgrímur B. Geirsson, hrl., Hörður Sigurgestsson, rekstrarhagfræðingur, Jarþrúður Ásmundsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi.