Gunnlaugur M. Kjerúlf fæddist á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal 9. desember 1919. Hann lést á heimili sínu á Egilsstöðum 6. ágúst 2012.

Foreldrar Gunnlaugs voru Metúsalem J. Kjerúlf bóndi, f. á Melum í Fljótsdal 14.1. 1882, d. 12.12. 1970, og Guðrún Jónsdóttir f. á Hólum í Hornafirði 4.4. 1884, d. 3.2.1956. Fæddust þeim hjónum 17 börn. Þau eru: Aðalbjörg f. 16.4. 1906, d. 2.11. 1949; Jónína Guðrún f. 11.4. 1907, d. 1921; Þorbjörg f. 27.11. 1908, d. 13.11. 1975; Stúlka f. andvana 27.11. 1909; Sigurður f. 30.10. 1910, d. 10.5. 1915; Jón f. 3.2. 1912, d. 29.9. 1970; Andrés f. 6.2. 1913, d. 30.5. 1913; Anna f. 20.5. 1914, d. 29.7. 1995; Eiríkur f. 30.10. 1915, d. 11.5. 1991; Sigríður f. 10.2. 1917, d. 23.4. 1998; Hjörtur f. 3.4. 1918, d. 15.9. 1919; Andrés Hjörtur f. 21.1. 1921, d. 21.2. 1979; Guðrún f. 22.1. 1923; Ragnhildur Björg f. 22.1. 1923, d. 6.3. 1999; Stefán f. 21.5. 1924, d. 7.8. 1968 og Ásdís f. 17.7. 1926, d. 28.3. 2007.

Kona Gunnlaugs var Una J. Kjerúlf, f. í Brekkugerði í Fljótsdal 10.5. 1921, d. 25.5. 1991. Foreldrar hennar voru Jörgen E. Kjerúlf f. 15.6. 1878, d. 27.5. 1961, og Guðrún Björg Elísabet Jónsdóttir f. 5.3. 1882, d. 22.4. 1972. Dætur Gunnlaugs og Unu eru tvær:

1) Guðrún Elísabet, f. á Hrafnkelsstöðum 5.7. 1941, búsett á Egilsstöðum. Maki: Axel Haraldur Ólafsson, f. 20.8. 1943, d. 21.9. 1987. Þau skildu. Börn þeirra eru: Rúnar Ólafur, f. 19.6. 1965. Maki: Valdís Hauksdóttir, f. 13.10. 1969. Þeirra börn: Axel Snær, f. 24.8. 1998, og Brynja Líf, f. 1.2. 2003. Dóttir Rúnars úr fyrri sambúð er Auður Hlín, f. 6.3. 1990. Móðir hennar er Halla Auðunardóttir, f. 27.4. 1971; Ægir, f. 19.3. 1967. Maki: Vigdís Hulda Kristjánsdóttir, f. 11.9. 1964. Synir þeirra: Elvar Þór, f. 3.1. 1989, og Unnar Már f. 17.3. 1992; Kolbrún, f. 20.4. 1968. Maki: Steinar Gunnarsson, f. 12.2. 1969. Börn þeirra: Elísabet Ýrr, f. 21.10. 1993, Steinar Gunnar, f. 28.6. 2000, og Tómas Axel, f. 9.11. 2001; Gunnlaugur, f. 29.4. 1969. Maki: Harpa Hlín Jónasdóttir, f. 23.10. 1968. Dætur þeirra: Védís Hrönn, f. 10.1. 1991, Steinunn Bjarkey, f. 5.5. 1996, og Elísabet Arna, f. 29.11. 2002.

2) Aðalbjörg, f. á Egilsstöðum 24.11. 1950, búsett á Vopnafirði. Maki: Jón Pétur Einarsson f. á Vopnafirði 16.4. 1950. Dóttir þeirra: Una Björk Kjerúlf, f. 5.4. 1975. Maki: Hilmar Þór Guðmundsson, f. 24.5. 1972. Þau skildu. Börn þeirra: Auður Ísold f. 28.2. 2004 og Jökull Þór f. 16.1. 2007.

Árið 1942 hóf Gunnlaugur búskap með Unu að Arnhólsstöðum í Skriðdal í tvíbýli við Sigríði systur sína og mann hennar, Einar Pétursson. Árið 1946 fluttu Gunnlaugur og Una í Buðlungavelli í Vallahreppi og bjuggu þar til ársins 1962 en þá fluttust þau til Egilsstaða. Hóf Gunnlaugur vinnu hjá Kaupfélagi Héraðsbúa og vann þar allan sinn starfsaldur eða til 72 ára aldurs. Í nokkur ár var hann sláturhússtjóri hjá Kaupfélaginu en lengst af vann hann við afgreiðslustörf.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Valþjófsstaðarkirkju í dag 15. ágúst 2012 klukkan 14.

Minn góði vinur, Gunnlaugur Kjerúlf, er látinn, níutíu og tveggja ára að aldri. Hann fékk hægt andlát í svefni rétt rúmum sólarhring eftir að við vinirnir höfðum átt dagstund saman og rifjað upp gamlar minningar. Viltu hafa það betra – varð Gunnlaugi oft að orði ef honum fannst eitthvað hafa lukkast vel. Nei, það varð sannarlega ekki á betra kosið. Hann hafði lifað langa og farsæla ævi, sáttur við guð og menn, þess albúinn að stíga yfir á aðrar lendur. Gunnlaugur Kjerúlf var gegnvandaður maður að allri gerð. Orðvar og hæverskur, skyldurækinn svo af bar, mátti ekki til þess hugsa að bregðast í nokkrum hlut er honum var trúað fyrir. Einstaklega hjálpsamur og greiðvikinn ef leitað var til hans og munu margir til vitnis um það þegar hann lagði allt til hliðar sem hann var að fást við og lagði á sig ómælt erfiði til að leysa hvern þann vanda sem við var að etja. Ætíð með slíkri ró og yfirvegun sem væri honum einstök ánægja og heiður að geta liðsinnt þeim sem í hlut átti.

Lopapeysa var það sem leiddi okkur saman. Peysa sem móðir mín lánaði honum eitt sinn í vetrarkuldum á Egilsstöðum með þessum orðum: Hérna, Gunnlaugur minn, þessi peysa hefur oft hlýjað honum Eysteini mínum, hún getur allt eins hlýjað þér. Þá höfðum við Gunnlaugur ekki enn haft spurnir hvor af öðrum. Lopaþráðurinn sá arna átti eftir að halda hátt í hálfa öld. Vinátta okkar þróaðist hægt og varfærnislega framan af en efldist með hverju ári. Þær eru orðnar býsna margar ferðirnar sem við fórum saman á vit óspilltrar náttúru, inn til dala, upp um heiðar, oft að fjallavötnum, fjarri ys og þys nútímans. Tjölduðum gjarnan eina til tvær nætur, sáum sólina ganga undir og koma svo upp aftur að vörmu spori. Heyrðum himbrimann syngja, fylgdumst með óðinshananum kvika í vatnsskorpunni, skoðuðum hugfangnir hreiður í móa og kjarri.

Af engum manni hef ég meira lært um margslungna þræði íslenskrar náttúru en Gunnlaugi Kjerúlf og kenndi hann mér að meta öll þau undur að verðleikum. Þegar ég kveinkaði mér eitt sinn í bréfi undan vetrarlöngum aðskilnaði okkar skrifaði hann til baka mér til hughreystingar og lauk bréfinu þessum orðum: Hugans leið er hægt að rata/ haustkvöld dimm sem björtu vorin. Og víst er um það, minn kærasti vinur, að meðan ég held ráði og rænu mun ég rata til minninganna um óskastundir okkar við fjallavötnin fagurblá. Hafðu heila þökk fyrir allt.

Elsu og Aðalbjörgu, svo og öllum afabörnunum votta ég mína dýpstu samúð.

Eysteinn Björnsson.

Ég var upp með mér að hann kallaði mig nafna sinn og hélt lengi í hönd hans á útidyratröppunum heima á Sólheimum uns mamma bað honum vægðar svo hann mætti koma inn fyrir. Ekki veit ég erindið og hefur sjálfsagt ekki verið brýnt utan það að líta inn hjá þessum næstu nágrönnum sínum í hreppnum og góðum vinum. Kvöldaði og pabbi kveikti á gasluktinni, sem svo var kölluð, eins konar samblandi af prímus og Aladínlampa, og gaf svo skæra birtu að okkur var ráðlagt að horfa ekki í það ljós. En nú þurfti birtunnar með því að gesturinn var að handfjatla eldhúsklukkuna sem hafði bilað fyrir nokkru og vakti hjá foreldrum mínum það venjubundna viðkvæði við slíkar aðstæður að þau skyldu biðja Gunnlaug að líta á þetta næst þegar hann kæmi. Og Gunnlaugur á Buðlungavöllum, innsta bæ í Vallahreppi, kom og leit á eldhúsklukku foreldra minna. Eitt af öðru lágu á eldhúsborðinu skrúfur, tannhjól og gangráðurinn, þetta dularfulla hjól sem snerist fram og til baka í takt við tikk-takk klukkurnar.

Í æsku minni nutum við handlagni Gunnlaugs við allt sem bilaði vélarkyns á heimilinu, saumavélina, eldhúsklukkuna, skilvinduna og prjónavélina sem mamma átti í félagi við nokkrar konur í sveitinni. Við horfðum hugfangin á þennan gest, börnin, mann sem gat gert við klukkur og kom í hlaðið á gráum hesti að jafnaði en var fótgangandi í þetta sinn. Kvaddi með kossi og nafna sinn með löngu handabandi að venju en pabbi fylgdi honum á leið. Upp úr lágnættinu vaknaði ég við að þeir stóðu undir húsveggnum og töluðu saman. Pabbi hafði fylgt vini sínum heim í túngarð en honum fannst ekki mega minna vera en að endurgjalda samfylgdina með því sama. Einhvern tímann undir morgun hafa þessir nágrannar og vinir sæst á að skiljast miðja vegu milli bæjanna, hafa kvaðst, gengið af stað, litið við og veifað í kveðjuskyni.

Það var sunnudagur í lok fyrri sláttar. Gunnlaugur sat á þúfu við túnfótinn út og niður af bænum og við í kring: „Þetta er góður gripur sem þú hefur fengið leyfi til að eignast, gæskur, en mundu að þetta er ekki leikfang“. Pabbi hafði látið undan þrábeiðni Dæa, elsta bróður míns, og leyft honum að eignast byssu ári fyrr en þá tíðkaðist í sveitum. Með því skilyrði að Gunnlaugur kenndi honum að fara með hana.

Við vorum flutt út í Hallormsstað og þetta sumar gengum við sunnudag eftir sunnudag, bræðurnir, sem leið lá inn í Buðlungavelli þar sem Gunnlaugur kenndi Dæa allt sem hægt var að læra tólf ára gamall um tuttugu og tveggja kalíbera riffil með magasíni.

Hann kenndi okkur sannarlega að umgangast þennan grip af varúð og virðingu en um leið gaf hann okkur, sem endranær, af ljúfmennsku sinni og vináttu, af ást sinni á náttúrunni og þekkingu sinni á landinu. Sannur og látlaus í hátt. Þannig tók hann sér bólfestu í hugarheimi okkar. Þegar við minnumst nú og iðulega Gunnlaugs á Buðlungavöllum finnum við hvað æskukynni okkar af þessum góða dreng hafa skilið eftir sig bjarta mynd af honum sjálfum en um leið af þeirri mildu veröld sem þau kynni veittu okkur hlutdeild í.

Gunnlaugur Sigurðsson

frá Hallormsstað.