Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Æskilegt er að leggja endurskoðað frumvarp um stjórn fiskveiða fyrir Alþingi sem fyrst vegna þess hvað málið er viðamikið, að mati Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Æskilegt er að leggja endurskoðað frumvarp um stjórn fiskveiða fyrir Alþingi sem fyrst vegna þess hvað málið er viðamikið, að mati Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Hann kveðst hafa horft til októbers í því sambandi, en vill þó ekki nefna dagsetningar um hvenær vænta megi frumvarpsins.

Steingrímur sagði að fara þyrfti yfir niðurstöður trúnaðarmannahóps stjórnmálaflokka um stjórn fiskveiða, en hann taldi mikið vanta upp á að hópurinn hefði náð samstöðu og þannig mætti segja að staðan væri dálítið opin aftur. Í yfirlýsingu oddvita stjórnarflokkanna við þinglok 18. júní s.l. var talað um að næðist samkomulag í trúnaðarmannahópnum yrði það lagt til grundvallar nýju frumvarpi. Finnst Steingrími álit hópsins þess eðlis að hægt sé að styðjast við það?

„Það felur í sér ákveðna kortlagningu á þeim ágreiningsatriðum sem út af standa í þessum hópi. En því miður er langt í land að hægt sé að tala þar um heildarsamkomulag,“ sagði Steingrímur. Hann taldi ómögulegt að túlka orðalagið öðru vísi en svo að það væri ekki bindandi.

„Þú getur ekki verið sammála um annan helminginn af máli ef þú ert svo fullkomlega ósammála um hinn helminginn. Það er ekkert hægt að líta svo á, því miður, að það sé einhver samkomulagsgrundvöllur sem hægt sé að byggja frumvarp á eða bindandi eins og hefði kannski verið í ríkari mæli ef menn hefðu náð utan um allt saman. Meðan er algjör andstaða eða fyrirvari af hálfu sumra þarna við stærð pottanna, kvótaþing o.s.frv. þá geta menn ekki bundið sig gagnvart öðru sem spilar saman við það.“

Steingrímur taldi að það yrði gagnlegt að fara yfir niðurstöðuna og nú væri hún komin á prent og lægi ljós fyrir. Málið hefði þroskast frekar en hitt, en talsvert væri enn eftir.