Aron Rafn Eðvarðsson
Aron Rafn Eðvarðsson
„Þetta var algjör steypa,“ segir Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður bikarmeistara Hauka í handbolta, við Morgunblaðið um seinni leikinn gegn svartfellska liðinu HC Mojkovac í 1. umferð EHF-keppninnar í handbolta.

„Þetta var algjör steypa,“ segir Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður bikarmeistara Hauka í handbolta, við Morgunblaðið um seinni leikinn gegn svartfellska liðinu HC Mojkovac í 1. umferð EHF-keppninnar í handbolta. Haukar unnu hann, 25:19, en einvígið var aldrei í hættu eftir 20 marka sigur í fyrri leiknum.

„Þeir voru mættir til að gera eitthvað allt annað en spila handbolta í seinni leiknum,“ segir Aron Rafn. „Þeir þrumuðu boltanum fjórum sinnum í höfuðið á mér, allt viljandi, hræktu á Freysa [Frey Brynjarsson] og einn skallaði Stebba [Stefán Rafn Sigurmannsson] í andlitið þegar hann lá í gólfinu.“

Þrátt fyrir þessi fíflalæti Svartfellinganna spiluðu þeir mun betur en í fyrri leiknum en Aron segir það líka Haukunum að kenna.

„Við vorum ekki nægilega einbeittir til að byrja með og gáfum þeim blóð á tennurnar. Í staðinn fyrir að keyra yfir þá strax vorum við slakir og leyfðum þeim að stjórna leiknum. Við fórum niður á þeirra tempó,“ segir Aron Rafn. Haukar mæta Motor Zaporozhye frá Úkraínu í næstu umferð. tomas@mbl.is