Albert Pálsson fæddist 12. júlí 1962. Hann lést 21. ágúst 2012.

Útför Alberts fór fram 30. ágúst 2012.

Elsku bróðir ekki bjóst ég við að kveðja þig svona fljótt en maður veit ekki hvenær lífshlaupið endar. Margar góðar stundir rifjast upp hjá mér frá fyrri árum, þú varst alltaf mjög góður við mig og man ég eftir því hvað mamma talaði oft um hvað þú hafir verið þolinmóður við að rugga mér í vagninum á svölunum í Fellsmúlanum, strax byrjaður að passa mig. Þegar ég komst á unglingsárin varst þú oftar en ekki langt undan og hafðir auga með systur þinni sem ég var nú oft ekki mjög ánægð með. Mjög margar og góðar stundir áttum við saman í Kaupmannahöfn þegar þú bjóst þar, koma þær mjög upp í huga minn á þessum erfiðu tímum.

Nákvæmni þín í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur var ótrúleg. Þú skilaðir aldrei neinu frá þér nema það væri alveg fullkomið og voru þeir heppnir sem þú tókst að þér að smíða fyrir, ekki var hægt að hugsa sér betri fagmann.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Elsku mamma, pabbi, Anton Emil og Benedikt Aron, hugur minn er hjá ykkur.

Þín systir,

Hildur.