Verðlaun Rúnar Pálmason með Jarðarberið, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og María Ellingsen, formaður dómnefndar. Verðlaunagripurinn er hannaður af Finnari Arnari Arnarsyni; krækiber með Íslandi á.
Verðlaun Rúnar Pálmason með Jarðarberið, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og María Ellingsen, formaður dómnefndar. Verðlaunagripurinn er hannaður af Finnari Arnari Arnarsyni; krækiber með Íslandi á. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
María Ólafsdóttir maria@mbl.is „Það er ekkert gaman að fara um svæði sem áður voru óskemmd og ganga fram á spólför eftir einhver tryllitæki. Akstur utan vega hefur verið og er enn vandamál.

María Ólafsdóttir

maria@mbl.is

„Það er ekkert gaman að fara um svæði sem áður voru óskemmd og ganga fram á spólför eftir einhver tryllitæki. Akstur utan vega hefur verið og er enn vandamál. Það er nauðsynlegt að fjalla um það til þess að menn átti sig á afleiðingunum,“ segir Rúnar Pálmason, blaðamaður á Morgunblaðinu, sem í gær hlaut fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir umfjöllun sína um akstur utan vega og umgengni við náttúru Íslands.

Í rökstuðningi þriggja manna dómnefndar segir að Rúnar hafi verið einkar fylginn sér í umfjöllun sinni en skrif hans um utanvegaakstur má rekja a.m.k. aftur til ársins 2004. Rúnar byggir skrif sín m.a. á viðtölum við landeigendur, jeppafólk, veiðimenn, ferðaþjónustufólk og fulltrúa umhverfis- og ferðafélaga og leitar jafnan eftir viðbrögðum sveitarstjórnarfólks og fulltrúa stjórnvalda.

Rúnar minnir á að umfjöllun Morgunblaðsins um utanvegaakstur og náttúruspjöll byggist að töluverðum hluta á ábendingum og ljósmyndum frá lesendum. „Stjórnvöld hafa lengi fjallað fram og til baka um viðbrögð við utanvegaakstri en enn er of margt ógert. Það hefur satt að segja tekið stjórnvöld ótrúlega langan tíma að koma regluverkinu í kringum þetta í almennilegt horf. Á endanum eru það samt ökumennirnir sjálfir sem bera ábyrgðina,“ segir Rúnar.

NÁTTÚRUVERNDARVIÐURKENNING

Fulltrúi náttúru og umhverfis

Á Degi íslenskrar náttúru hlaut Hjörleifur Guttormsson náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Í rökstuðningi dómnefndar segir að Hjörleifur hafi um áratugaskeið barist fyrir verndun náttúru Íslands og átti hann frumkvæði að stofnun Náttúruverndarsamtaka Austurlands þar sem hann var formaður um níu ára skeið. Þá hafi Hjörleifur átt beina aðkomu að stofnun og þróun margra helstu þjóðgarða landsins og var hann m.a. hvatamaður að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Þá beitti hann sér með ýmsum hætti í þágu náttúruverndar sem þingmaður og hefur einnig látið til sín taka í umhverfis- og náttúruverndarmálum á alþjóðavettvangi. Loks er Hjörleifur höfundur fjölmargra bóka og greina um umhverfismál og íslenska náttúru.