Friðrik Rafnsson
Friðrik Rafnsson
Eftir Friðrik Rafnsson: "Charcot kom margoft hingað til lands á sínum tíma, eignaðist hér fjölmarga vini og hélt góðu sambandi við þá allt til hinstu stundar."

Græðgi og sjálfselska eru orð sem ærið oft hafa komið fyrir í umræðunni hérlendis undanfarin ár og það því miður ekki að ósekju. Það er því sérstakt fagnaðarefni þegar andstæður þess, örlæti og gjafmildi, líta dagsins ljós. Dæmi um það eru tvær veglegar gjafir frá Frakklandi sem brátt bætast í safnkost sýningarinnar „Heimskautin heilla“ í Háskólasetri Suðurnesja í Fræðasetrinu í Sandgerði.

Annars vegar er það líkan úr selskinni af kajak úr eigu Charcots, sennilega frá því um 1920. Hins vegar forláta líkan og nákvæm eftirlíking af rannsóknaskipinu Pourquoi Pas? smíðað af miklum völundi, Claude Acard, en hann hóf að smíða það árið 1947 og lauk við það skömmu áður en hann lést, árið 1988.

Jean-Baptiste Charcot

Franski heimskautafarinn, leiðangursstjórinn og læknirinn Jean-Baptiste Charcot (1867-1936) var einn þeirra merkismanna sem fyrstir könnuðu og kortlögðu haf- og landsvæðin umhverfis heimskautin í byrjun síðustu aldar, en meðal annarra þekktra heimskautafara þessa tíma má nefna Amundsen, Scott, Nordenskjöld, Peary og Vilhjálm Stefánsson.

Þekktasta skip hans var Pourquoi-Pas? – sérútbúið rannsóknaskip með þremur rannsóknastofum og bókasafni. Í ferðum þess voru gerðar margvíslegar vísindarannsóknir sem þykja stórmerkar enn þann dag í dag. Þann 16. september 1936 lenti skip hans Pourquoi pas? í miklu og óvæntu óveðri út af Garðskaga, hraktist upp í Borgarfjörð og fórst á Hnokka út af Álftanesi á Mýrum. Alls létust 40 manns, 23 fundust látnir, 17 var saknað og fundust aldrei og einn skipverji komst lífs af.

Heimskautin hella

Sýningin „Heimskautin hella“ var opnuð í Háskólasetri Suðurnesja í Sandgerði 25. febrúar 2007. Sýningunni er ætlað er að varpa ljósi á ævi og starf þessa merka manns. Þar hefur verið leitast við að endurskapa það magnaða andrúmsloft sem ríkti um borð í rannsóknaskipunum á sínum tíma, en auk þess hefur verið safnað saman margvíslegum fróðleik í máli og myndum um ævi Charcots og störf. Sjá:http://www.heimskautinheilla.is/

Tveir dýrgripir

Þriðjudaginn 18. september bætast tveir dýrgripir við sýningarkostinn. Annars vegar afhendir dótturdóttir Charcots, frú Anne-Marie Vallin-Charcot, líkan af kajak sem innfæddir gáfu Charcot í einum af rannsóknaleiðöngrunum til Grænlands á fyrri hluta 20. aldarinnar. Hins vegar verður sýningunni gefið veglegt líkan af rannsóknaskipinu Pourquoi pas? Líkanið gerði maður að nafni Claude Acard (1922–1988) sem bjó í Le Havre í Norður-Frakklandi. Eftirlifandi eiginkona hans gefur líkanið í minningu eiginmanns síns og áhafnarinnar á Pourquoi pas?

Charcot kom margoft hingað til lands á sínum tíma, einkum á árunum 1918 til 1936, eignaðist hér fjölmarga vini og hélt góðu sambandi við þá allt þar til yfir lauk. Það er í anda þessarar vináttu sem afkomendur hans og áhugafólk um að halda minningu hans á lofti gefa okkur Íslendinga þessa dýrgripi.

Höfundur er þýðandi