Ásmundur Einar Daðason
Ásmundur Einar Daðason
Eftir Ásmund Einar Daðason: "Þjóðkirkjan er meira en söguleg arfleifð okkar, hún er lifandi veruleiki sem snertir líf okkar flestra með einum eða öðrum hætti alla ævigönguna."

Íslendingar tóku kristna trú fyrir þúsund árum í góðri sátt. Mörg önnur samfélög hafa búið við ófrið um aldir vegna trúardeilna en á Íslandi tókst okkur að ná sátt á alþingi um trúmál sem hefur haldið síðan, að slepptum fáeinum árum við lok miðalda þegar landlæg andúð Íslendinga á yfirgangssömu erlendu yfirvaldi blandaðist inn í siðaskiptin.

Þjóðkirkjan er miklu meira en söguleg arfleifð okkar. Hún er lifandi veruleiki sem snertir líf okkar flestra með einum eða öðrum hætti alla ævigönguna. Ekki aðeins þiggjum við þjónustu kirkjunnar á tímamótum við skírn, fermingu, giftingu og jarðafarir heldur sinnir kirkjan verðmætu starfi á sviði æskulýðsstarfs, hjálparstarfs og í þágu eldri borgara. Sóknir landsins eru um 270 talsins og án þeirra væri þjóðfélag samkenndar og velferðar algjörlega ólíkt því sem við þekkjum í dag. Þá er ótalið mikilsvert starf kirkjunnar í þágu lista og menningarlífs.

Sóknargjöld eru hluti af sáttmála ríkis og kirkju

Þjóðkirkjan starfar á grundvelli laga og samninga við ríkisvaldið. Sóknargjöld eru einu föstu tekjur kirkjunnar til að fjármagna allt starf sitt. Allir eldri en 16 ára greiða sóknargjöld. Í samningi ríkis og kirkju frá 1998 segir: „auk þess innheimtir ríkissjóður eins og verið hefur sóknar- og kirkjugarðsgjöld fyrir þjóðkirkju Íslands og innir af hendi lögbundnar greiðslur í Kirkjumálasjóð, Jöfnunarsjóð sókna og Kirkjugarðasjóð“.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ákvað að lækka þennan eina tekjustofn þjóðkirkjunnar. Framsóknarflokkurinn vildi standa vörð um sóknargjöldin en ríkisstjórnarflokkarnir stóðu á því fastar en fótunum að skerða ætti framlög til kirkjustarfsins. Vinstriflokkarnir eru ekki þekktir fyrir örlæti gagnvart þjóðkirkjunni.

Órjúfanlegur hluti af grunnstoðum þjóðarinnar

Í fyrstu málsgrein 62. gr. stjórnarskrár lýðveldisins segir um þjóðkirkjuna: „Hin evangelísk lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“ Þarna undirstrika grunnlög þjóðarinnar mikilvægi þjóðkirkjunnar og boða að ríkisvaldið skuli styðja og vernda kirkjuna.

Tilburðir eru í þá átt að veikja stöðu kirkjunnar með því að fá þjóðkirkjuákvæðið afnumið úr stjórnarskránni. Framsóknarflokkurinn leggst eindregið gegn því að hróflað sé við stöðu kirkjunnar í stjórnarskrá lýðveldisins. Þjóðkirkjan og íslenskt samfélag eru bandamenn. Í þúsund ára sögu kristni á Íslandi hefur trúin verið kynslóðunum styrkur og kirkjustarfið samfélagsstoð. Við eigum að sýna þjóðkirkjunni þá virðingu sem henni ber og getum kinnroðalaust gert það án þess að í nokkru sé hallað á þá sem búa að annarri sannfæringu en þeirri kristnu.

Höfundur er alþingismaður Framsóknarflokksins.