María Ólafsdóttir maria@mbl.is 17 þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar eru flutningsmenn frumvarps til stjórnarskipunarlaga sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Pétur H. Blöndal Sjálfstæðisflokki er fyrsti...

María Ólafsdóttir

maria@mbl.is

17 þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar eru flutningsmenn frumvarps til stjórnarskipunarlaga sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Pétur H. Blöndal Sjálfstæðisflokki er fyrsti flutningsmaður.

Frumvarpið, sem fjallar um hvernig stjórnarskrá verði breytt, hefur áður verið lagt fram en er nú lagt fram með breytingum. Þar er nú gert ráð fyrir að 40 þingmenn þurfi að samþykkja breytinguna í stað 2/3 þingmanna áður. Þá er gert ráð fyrir að helmingur atkvæðisbærra kjósenda þurfi að samþykkja breytinguna þannig að hún taki gildi. Í greinargerð kemur fram að það sé skoðun flutningsmanna að breytingar á stjórnarskrá eða ný stjórnarskrá eigi að njóta mikillar samstöðu meðal alþingismanna og ekki síður meðal þjóðarinnar sem grundvallarlög samfélagsins. Benda flutningsmenn á að mjög litlar kröfur séu nú gerðar til samstöðu á Alþingi, einfaldur meirihluti nægi. Þá telja þeir að þjóðin eigi að greiða atkvæði um stjórnarskra´rbreytingar beint og bindandi og setja sér þannig sína stjórnarskrá. Telja flutningsmenn það horfa undarlega við að fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá verði ekki bornar undir þjóðina.

Frumvarpið
» Breytingar á stjórnarskrá eða ný stjórnarskrá eigi að njóta mikillar samstöðu meðal alþingismanna.
» 40 þingmenn þurfi að samþykkja breytinguna og helmingur kosningabærra manna
» Flutningsmennirnir telja það horfa undarlega við að fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá verði ekki bornar undir þjóðina.