Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson átti stóran þátt í 3:1-útisigri Tottenham á Reading í gær sem var fyrsti sigur Tottenham á leiktíðinni í ensku úrvalsdeildinni.

Gylfi Þór Sigurðsson átti stóran þátt í 3:1-útisigri Tottenham á Reading í gær sem var fyrsti sigur Tottenham á leiktíðinni í ensku úrvalsdeildinni. Frammistaðan varð meðal annars til þess að Gylfi var valinn í úrvalslið helgarinnar hjá ESPN-fréttasíðunni.

Gylfi var vitaskuld að leika á sínum gamla heimavelli og var vel tekið af stuðningsmönnum Reading sem hann skoraði svo mörg mörk fyrir á sínum tíma. Hafnfirðingurinn átti stórkostlega sendingu inn á Aaron Lennon eftir um korters leik og Lennon skilaði boltanum inn á Jermain Defoe sem skoraði fyrsta markið. Þess má til gamans geta að sending Gylfa vakti athygli kappa á borð við NBA-stjörnuna Steve Nash og gömlu Southampton-hetjuna Matt Le Tissier, sem hrósuðu Gylfa á samskiptavefnum Twitter líkt og fleiri. Gylfi fékk svo kjörið tækifæri til að skora sjálfur eftir undirbúning Defoes en skot hans af markteig var varið af varnarmanni á marklínu.

Tuttugu mínútum fyrir leikslok kom Gareth Bale Tottenham í 2:0 og Gylfi var tekinn af velli í kjölfarið. Defoe þakkaði svo André Villas-Boas enn fyrir að hafa valið sig fram yfir Emmanuel Adebayor þegar hann skorað þriðja markið áður en heimamenn klóruðu í bakkann í lokin.

„Ég er ánægður með liðið í heild. Það voru allir staðráðnir í að sigla heim fyrsta sigrinum,“ sagði Villas-Boas. „Við höfum beðið eftir þessum leik í drjúga stund. Þetta er mikilvægt fyrir alla og vonandi er þetta vendipunktur fyrir okkur,“ bætti hann við. sindris@mbl.is