Íslandsmeistarar Guðjón Árni Antoníusson lyftir hér Atla Guðnasyni eftir að Atli skoraði seinna mark FH í 2:2 jafnteflinu gegn Stjörnunni í gærkvöldi sem á endanum tryggði liðinu Íslandsmeistaratitilinn á nýjan leik en þetta var í sjötta sinn á níu árum sem FH verður Íslandsmeistari í knattspyrnu karla.
Íslandsmeistarar Guðjón Árni Antoníusson lyftir hér Atla Guðnasyni eftir að Atli skoraði seinna mark FH í 2:2 jafnteflinu gegn Stjörnunni í gærkvöldi sem á endanum tryggði liðinu Íslandsmeistaratitilinn á nýjan leik en þetta var í sjötta sinn á níu árum sem FH verður Íslandsmeistari í knattspyrnu karla. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.is „Þetta er alveg frábært. Það er alltaf jafngaman að vinna þetta,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, sem stýrði liðinu til sjötta Íslandsmeistaratitilsins á síðustu níu árum.

Fótbolti

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

„Þetta er alveg frábært. Það er alltaf jafngaman að vinna þetta,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, sem stýrði liðinu til sjötta Íslandsmeistaratitilsins á síðustu níu árum. Titilinn tryggði liðið sér með jafntefli gegn Stjörnunni í Garðabæ í gærkvöldi og ætlaði allt um koll að keyra hjá fjölmörgum stuðningsmönnum FH á Stjörnuvellinum í gær þegar flautað var til leiksloka.

„Það eru samt svolítil vonbrigði að ná ekki í þrjú stig hérna í kvöld en Stjörnuliðið er auðvitað frábært,“ sagði Heimir við Morgunblaðið eftir leikinn.

FH á titilinn skilið svo um munar. Liðið hefur verið stöðugast á tímabilinu og er búið að tryggja sér titilinn þótt enn séu þrjár umferðir eftir. Heimir tók að sjálfsögðu undir það að besta liðið hefði unnið.

„Það er ekki spurning. Við erum búnir að spila að mörgu leyti mjög vel í sumar. Það sem breytist hjá FH í ár frá því í fyrra er að það er miklu meiri liðsheild á bak við allt sem við erum að gera. Það er meiri dugnaður og samheldni í liðinu. Svo er liðið auðvitað fullt af frábærum fótboltamönnum,“ sagði Heimir skælbrosandi í nepjunni í Garðabænum.

Heimir var fljótur að finna sitt lið í sumar og hefur vanalega ekki verið erfitt að giska á uppstillingu FH-liðsins fyrir leiki í deildinni. Heimir lofaði líka varnarleik liðsins í sumar.

„Það er alveg frábært. Þú vilt hafa þitt lið og það náðum við að gera. Svo vörðumst við líka mun betur en undanfarin tvö ár. Varnarlínan hélst heil nánast allt mótið og svo hefur Gunnleifur verið frábær í markinu. Einnig byrjuðum við mótið betur og það skilaði okkur þessum sigri. Við vissum alltaf að við myndum vinna ákveðið marga leiki í seinni umferðinni,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari Íslandsmeistara FH.

Fyrirliðinn Gunnleifur Gunnleifsson var enn að átta sig á því hvað væri að gerast þegar Morgunblaðið spjallaði við hann í miðjum fagnaðarlátunum.

„Ég er bara í skýjunum. Ég er hrikalega stoltur af sjálfum mér og öllum þeim sem eru hérna í kringum mig. Það er sannur heiður að vera fyrirliði Fimleikafélags Hafnarfjarðar. Þetta er frábært félag með frábæra stjórn, þjálfara og leikmenn. Þetta er stórkostleg stund,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson, fyrirliði Íslandsmeistara FH. 4-5