Snjall Dagur Sigurðsson stöðvaði Alfreð Gíslason og lærisveina hans.
Snjall Dagur Sigurðsson stöðvaði Alfreð Gíslason og lærisveina hans. — Morgunblaðið/Golli
Degi Sigurðssyni og lærisveinum hans í Füchse Berlin tókst í gær að stöðva ótrúlega sigurgöngu Kiel þegar liðin mættust í þýsku 1. deildinni í handknattleik í Max-Schmeling höllinni að viðstöddum 9.000 áhorfendum.

Degi Sigurðssyni og lærisveinum hans í Füchse Berlin tókst í gær að stöðva ótrúlega sigurgöngu Kiel þegar liðin mættust í þýsku 1. deildinni í handknattleik í Max-Schmeling höllinni að viðstöddum 9.000 áhorfendum.

Í miklum baráttu- og spennuleik skildu liðin jöfn, 26:26. Kiel var með undirtökin lengst af leikum. Liðið hafði yfir eftir fyrri hálfleikinn, 12:9, og þegar sex mínútur voru eftir höfðu meistarar Kiel yfir, 25:21. Berlínarrefirnir neituðu hins vegar að gefast upp. Þeim tókst að jafna metin í 25:25 og á lokamínútunum var stiginn mikill stríðsdans sem endaði með því að liðin sættust á skiptan hlut.

Fyrir leikinn hafði Kiel spilað 40 leiki í röð án þess að tapa í deildinni en síðasti tapleikur lærisveina Alfreðs Gíslasonar leit dagsins ljós í maímánuði 2011.

Aron Pálmarsson skoraði 5 mörk fyrir Kiel og Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 2 en markahæstur í liði Þýskalands- og Evrópumeistaranna var Christian Zeitz með 6 mörk.

Füchse Berlin og Rhein-Neckar Löwen, liðið sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar, eru efst í deildinni með 10 stig en Löwen, sem hefur fullt hús stiga, á leik til góða á Berlínarliðið. Kiel er í 4. sætinu með 7 stig en liðið á leik til góða á Löwen og tvo á Füchse Berlin.

Mikil trú í okkar liði

„Ég er feginn að strákarnir mínir fengu verðlaun fyrir gríðarlega baráttu og fyrir að hafa ekki lagt árar í bát. Það er mikil trú í okkar liði og ég get ekki verið annað en ánægður að taka stig á móti besta liðinu,“ sagði Dagur eftir leikinn.

„Ég var mjög ósáttur við það hvernig við köstuðum frá okkur góðu forskoti undir lokin. Við vorum með unninn leik en það greip um sig einhver værukærð í okkar liði,“ sagði Alfreð Gíslason þjálfari Kiel. gummih@mbl.is