Hrefna Sætran Grillar á RÚV
Hrefna Sætran Grillar á RÚV — Morgunblaðið/Kristinn
Hrefna Sætran grillar á RÚV og er ákaflega hugmyndarík í samsetningum. Um daginn grillaði hún grænmeti. Ég hef ekkert sérstakt á móti grænmeti þótt mér þyki gulrætur fremur hvimleiðar.

Hrefna Sætran grillar á RÚV og er ákaflega hugmyndarík í samsetningum. Um daginn grillaði hún grænmeti. Ég hef ekkert sérstakt á móti grænmeti þótt mér þyki gulrætur fremur hvimleiðar. Hins vegar hef ég aldrei skilið þegar kokkar nota heilan þátt til að matreiða einungis grænmeti. Ein og ein lambakóteletta mætti alveg fljóta með.

Andri á flandri mætir svo í þætti Hrefnu Sætran til að smakka á góðgætinu. Andri lítur út fyrir að vera alvöru kjötmaður, maður sér hann allavega ekki fyrir sér japla á gulrót. Hann stóð sig hetjulega í grænmetisþættinum og smakkaði á hverjum grænmetisréttinum á fætur öðrum án þess að mögla og tókst reyndar að stynja upp hrósyrðum eins og: „Áhugavert!“ Það sást samt á honum að hann hefði alveg þegið pulsu og kótelettu.

Grilluðu sveppirnir með camembert vöktu sérstaka hrifningu mína og sömuleiðis kartöflusalat með mango og beikonvöfðum döðlum, en svoleiðis fínerí kallar á kjöt og á ekki að borðast eitt sér.

Ég veit að grænmetisætur finnast hér á landi og fagna þegar grænmetið kemst í einokunaraðstöðu. En ein kjötsneið hefði alveg mátt sjást í þessum þætti.

Kolbrún Bergþórsdóttir