Barátta Fylkismaðurinn David Elebert hefur betur gegn framherjanum Viðari Erni Kjartanssyni.
Barátta Fylkismaðurinn David Elebert hefur betur gegn framherjanum Viðari Erni Kjartanssyni. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
í Árbænum Ívar Benediktsson iben@mbl.is Fylkismenn náðu sennilega að kveðja falldrauginn með sigri sínum á Selfossi á heimavelli í gær, 2:0.

í Árbænum

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Fylkismenn náðu sennilega að kveðja falldrauginn með sigri sínum á Selfossi á heimavelli í gær, 2:0. Sigurinn var þeim hinsvegar ekki auðveldur og það var ekki fyrr en lið Selfoss var orðið tveimur leikmönnum fátækara á leikvellinum sem Fylkisliðinu tókst að skora mörkin tvö sem nægðu þeim til þess að innbyrða stigin þrjú.

Selfoss hafði leikið fimm leiki í röð án taps þegar liðið mætti á Fylkisvöllinn. Þar af eru fjórir sigurleikir og spurningin var sú hvort lengra yrði gengið á þeirri braut en lærisveinar Loga Ólafssonar áttu og eiga enn í hatrömmu fallstríði. Leikurinn byrjaði fjörlega en upp úr miðjum fyrri hálfleik breyttist leikurinn verulega þegar Robert Sandnes var vísað af velli með rautt spjald á heldur óverðskuldaðan hátt en hann rann við áður en hann lenti illa á einum leikmanna Fylkis. Einum færri breyttist áætlun Selfossmanna verulega og ekki bætti úr skák þegar þeir sáu á bak Stefáni Ragnari Guðlaugssyni af leikvelli á 55. mínútu, einnig með rautt spjald. Enginn vafi lék á réttmæti þess dóms.

Leikmönnum Fylkis óx kraftur til sóknar við það að hafa fleiri leikmenn á vellinum og aðeins fimm mínútum eftir brottrekstur Stefáns braut Magnús Þórir Matthíasson ísinn. Selfyssingar voru ekki af baki dottnir þrátt fyrir liðsmuninn. Þeir voru skeinuhættir í skyndisóknum sínum, ekki hvað síst Viðar Örn Kjartansson. Ellefu mínútum fyrir leikslok innsiglaði Björgólfur Takefusa sigur Fylkis með fyrsta marki sínu í deildinni í sumar. Eftir það voru leikmönnum Selfoss allar bjargir bannaðar. Þeirra bíður áframhaldandi fallbarátta, væntanlega fram í síðasta leik, Fylkismenn geta andað léttar og leikið af meira sjálfstrausti en áður eftir að hafa rekið falldrauginn af höndum sér.

Fylkir – Selfoss 2:0

Fylkisvöllur, Pepsi-deild karla, 19. umferð, sunnudaginn 16. september 2012.

Skilyrði : NV gola, hálfskýjað og 10 gráðu hiti en kaldara undir lokin. Rigningarvottur snemma í síðari hálfleik. Völlurinn viðunandi.

Skot : Fylkir 15 (10) – Selfoss 9 (4).

Horn : Fylkir 5 – Selfoss 5.

Lið Fylkis : (4-5-1) Mark : Bjarni Þórður Halldórsson. Vörn : Elís Rafn Björnsson (Sigurvin Ólafsson 46.), David Elebert (Björgólfur Takefusa 62.), Kjartan Ágúst Breiðdal, Tómas Þorsteinsson. Miðja : Ingimundur Níels Óskarsson, Davíð Þór Ásbjörnsson (Ásgeir Eyþórsson 66.) Finnur Ólafsson, Emil Ásmundsson, Magnús Þórir Matthíasson. Sókn : Árni Freyr Guðnason.

Lið Selfoss : (4-4-2) Mark : Ismet Duracak. Vörn : Endre Ove Brenne, Stefán Ragnar Guðlaugsson, Hafþór Þrastarson, Robert J. Sandnes. Miðja : Jón Daði Böðvarsson, Babacar Sarr, Egill Jónsson, Tómas Leifsson (Ivar Skjerve 31.). Sókn : Jon André Röyrane (Marko Hermo 58.), Viðar Örn Kjartansson.

Dómari : Vilhjálmur Alvar Þórarinsson – 6.

Áhorfendur : Ekki gefið upp.

Þetta gerðist á Fylkisvelli

FÆRI 6. Viðar Örn Kjartansson var í þokkalegu færi nærri markteigshorni eftir góða sendingu frá vinstri kanti. Skot Viðars fer framhjá marki Fylkis.

25. Robert Sandnes reyndi að ná til boltans en rann og tæklaði Magnús Þóri Matthíasson illa við miðjan leikvöllinn, hægra megin. Harkalegur dómur.

FÆRI 52. Árni Freyr Guðnason í opnu færi skammt frá marki Selfoss en máttlaust skot hans er varið. Þarna átti Árni að gera betur.

55. Stefán Ragnar Guðlaugsson fær beint rautt spjald fyrir harkalega tæklingu á Sigurvini Ólafssyni nærri miðjunni vinstra megin vallarins. Enginn vafi lék á réttmæti þessa spjalds.

1:0 59. Ingimundur Níels Óskarsson sendi knöttinn fyrir mark Selfoss frá hægri kanti. Boltinn barst í gegnum vörn Selfossliðsins og til Magnúsar Þóris Matthíassonar sem var einn á auðum sjó, vinstra megin í vítateignum. Magnús spyrnti knettinum rakleitt í mark Selfoss með vinstri fæti.

FÆRI 64. Viðar Örn var einu sinni sem oftar að gera usla í vörn Fylkis. Hann komst í gott færi á markteigshorni hægra megin en varnarmaður Fylkis var hársbreidd á undan í boltann og bægði hættunni frá.

2:0 79. Aftur var Ingimundur Níels Óskarsson á ferðinni upp vinstri kantinn. Sending hans fyrir mark Selfoss hrökk af einum varnarmanna Selfoss og til Björgólfs Takefusa sem þakkaði fyrir sig með því að skalla boltann í slána og inn fyrir marklínu Selfossliðsins.

Gul spjöld:

Árni Freyr (Fylki) 8. (leikaraskapur), Finnur (Fylki) 58. (brot), Kjartan Ágúst (Fylki) 58. (ástæða), Elebert (Fylki) 60. (brot), Bjarni Þórður (Fylki) 85. (töf), Brenne (Selfossi) 89. (brot), Hafþór (Selfossi) 90. (brot)

MMM

Enginn.

MM

Enginn.

M

Bjarni Þórður Halldórsson (Fylki)

Finnur Ólafsson (Fylki)

Kjartan Ágúst Breiðdal (Fylki)

Magnús Þórir Matthíasson (Fylki)

Ingimundur N. Óskarsson (Fylki)

Jón Daði Böðvarsson (Selfossi)

Babacar Sarr (Selfossi)

Viðar Örn Kjartansson (Selfossi)